Home / Fréttir / Rússar stórefla flugher og ratsjárstöðvar á norðurslóðum

Rússar stórefla flugher og ratsjárstöðvar á norðurslóðum

 

Vladimir Pútín fundar með yfirmönnuim rússneska hersins.
Vladimir Pútín fundar með yfirmönnuim rússneska hersins.

Á fundi Vladimirs Pútins Rússlandsforseta nú í vikunni með yfirmönnum rússnesku herstjórnarsvæðanna beindist athyglin sérstaklega að norðurslóðum segir í frétt á vefsíðunni Barents Observer miðvikudaginn 19. desember eftir Atle Staalesen. Sergeij Shoigu varnarmálaráðherra sagði að samhliða því sem lagðir yrðu nýir flugvellir á þessum slóðum yrði að efla ratsjáreftirlit.

Ráðherrann sagði að nú hefðu verið settar upp nýjar ratsjár við næstum allar endurnýjaðar herstöðvar ríkisins við Norður-Íshaf.

Framkvæmdir við 59 nýjar byggingar fyrir flugherinn og ratsjárstöðvar eru á lokastigi í nýju Nagurskaja-herstöðinni á Alexander-land sem eru hluti Franz Josef-lands eyjaklasans í Norður-Íshafi. Sömu sögu er að segja um Temp-flugvöll lengst í austri við Kotelníj-herstöðina.

Varnarmálaráðherrann sagði að lokið væri heildarendurnýjun á Severomorsk-1 flugvelli á Kólaskaga og unnið væri að því að reisa nýjan bæ fyrir hermenn nálægt Tiksi. Þar verða liðsmenn í 3. lofvarnasveit rússneska Norðurflotans og á að opna stöðina árið 2019. Jafnframt yrði á næsta ári lokið við að setja upp ratsjár og reisa mannvirki á þremur öðrum stöðum.

Ratsjá á Alexander-landi.
Ratsjá á Alexander-landi.

Shoigu sagði í skýrslu sinni til forsetans að þörf á nýjum herstöðvum og hernaðarmannvirkjum á norðurslóðum hefði aukist vegna þrýstings frá NATO og Bandaríkjunum. Hann sagði að ætlun Bandaríkjastjórnar væri að ný-endurvirkjaður 2. Atlantshafsfloti hennar léti mest að sér kveða á Norður-Íshafi. Þá væru Norðmenn að reisa Globus-3 ratsjárstöð í aðeins 60 km fjarlægð frá rússnesku landamærunum. Auk þess hefðu Norðmenn samþykkt að tvöfalda fjölda bandarískra landgönguliða í landi sínu.

Undanfarin ár hafa Rússar stóreflt getu sína til eftirlits á risastóru heimskautasvæði sínu. Ár hvert fær herinn nú árlega afhent tæki í meira en 70 ratsjárstöðvar að sögn yfirmanna ratsjárdeildar rússneska hersins, Andreijs Kobans.

Hann segir að undanfarin fimm ár hafi verið stigin risavaxin skref á þessu sviði. Meira en tíföldun hafi orðið á ratsjárkerfum heraflans. Nú haldi sveitir undir sinni stjórn uppi eftirliti hvarvetna á landamærum rússneska ríkisins, á sjó, á landi og í lofti. Um þessar mundir sé forgangsatriði að efla þessa gæslu enn meira á norðurslóðum.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …