
Rússar ætla að stofna tvær norðurslóða-herdeildir í þvi skyni að efla öryggi við Norðurleiðina, siglingaleiðina milli N-Atlantshafs og Kyrrahafs um Norður-Íshaf fyrir norðan Rússland. Líklegt er að önnur herdeildin verði á Kóla-skaga við austur landamæri Noregs segir rússneska blaðið Izvestia.
Heimildarmaður í rússneska varnarmálaráðuneytinu segir við blaðið að nýju herdeildirnar hafi það hlutverk að verjast árás, skemmdarverkum, loftárás og öðrum hættum við Norðurleiðina.
Önnur herdeildin verður á vesturhluta rússneskra norðurslóða hin á austurhlutanum. Þær verða báðar undir yfirstjórn Norðurflotans og vinna náið með stofnunum innanríkisráðuneytisins, þjóðvarðliðinu og landamæravörðum FSB, öryggislögreglunnar.
Frá fyrri tíð er svonefnt norðurslóða-stórfylki rússneska hersins á Kóla-skaga. Sveitir úr stórfylkinu eru við landamæri Noregs og Finnlands.
Sergeij Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, staðfesti í fyrra að unnið væri að þróun nýs herstjórnakerfis á austurhluta norðurslóða Rússlands. Kerfið kemur til sögunnar árið 2018 og undir það falla nokkur vélaherfylki og munu þau meðal annars treysta á fjórhjól, sagði ráðherrann.