Home / Fréttir / Rússar splundra korn-samkomulagi við Úkraínumenn

Rússar splundra korn-samkomulagi við Úkraínumenn

Úkraínumenn og Rússar gerðu samkomulag föstudaginn 22. júlí í Istanbúl að viðstöddum aðalritara Sameinuðu þjóðanna og Tyrklandsforseta um að opna leið til útflutnings á korni, hveiti og maís sjóleiðis frá höfnum í Úkraínu. Daginn eftir var samkomulagið í uppnámi vegna skotflaugaárása Rússa á höfnina í Odessa.

Vololdymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, sakaði að kvöldi laugardags 23. júlí Rússa um „barbarisma“, árásin á Odessa hefði „eyðilagt“ tækifærið til viðræðna við ráðamenn í Moskvu.

Sunnudaginn 24. júlí sögðu Rússar að flaugar þeirra hefðu aðeins hitt hernaðarleg skotmörk í Odessa og ekkert tjón hefði verið unnið á korngeymslum.

Frá Kyív bárust yfirlýsingar um að Rússar hefðu af ásetningi skotið á höfnina. Það breytti þó engu um áform Úkraínumanna um útflutning á korni að samkomulagið við Rússa væri í molum.

Ætlunin var að samkomulagið frá 22. júlí tryggði að milljónum tonna yrði siglt út úr Svartahafi til markaða víða um heim. Í textanum stendur að hvorugur aðili samkomulagsins muni gera árás á skip sem flytji matvæli.

Höfnin í Odessa er mikilvægasta hafnarborgin við Svartahaf og þar er helsta útflutningshöfnin á korni í Úkraínu.

„Sprengjum var skotið á höfnina í Odessa þar sem korni er lestað í skip til útflutnings. Við skutum niður tvær flaugar en tvær aðrar flaugar hæfðu hafnarsvæðið, þar var að sjálfsögðu korn,“ sagði Júrí Ignat, talsmaður flughers Úkraínu, við fréttamenn.

Borgaryfirvöld sögðu að fólk hefði slasast án þess að lýsa því frekar. Þá eyðilögðust hafnarmannvirki í sprengingum og eldi sem af þeim kviknaði.

Rússneska utanríkisráðuneytið sagði ekkert um árásina fyrr en sunnudaginn 24. júlí og fullyrti þá að aðeins hefði verið miðað á hernaðarleg skotmörk, þar á meðal innflutt vopn frá Vesturlöndum.

Igor Konashenkov, talsmaður utanríkisráðuneytisins, sagði á daglegum blaðamannafundi í Moskvu að marksæknum langdrægum flaugum hefði verið skotið frá sjó og þær hefðu eyðilagt úkraínskt herskip í höfninni og vörugeymslu með bandarískum Harpoon-flaugum gegn skipum til ráðstöfunar fyrir stjórnina í Kyív.

Talsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa „afdráttarlaust fordæmt“ árásina og einnig embættismenn ESB. Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, sagði árásinar „sýna algjört virðingarleysi Rússa fyrir alþjóðalögum“.

Embættismaður utanríkisráðuneytis Úkraínu sakaði Vladimir Pútin um að „hrækja í andlitið“ á Antonio Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna og Recep Erdogan, forseta Tyrkja. Það væri „alfarið á ábyrgð“ Rússa rynni samkomulagið út í sandinn.

Zelenskíj forseti fullyrti síðar að Moskvumenn hefðu brotið gegn ákvæðum þessa fyrsta samkomulags sem stjórnvöld landanna hafa gert sín á milli síðan Pútin gaf fyrirmæli um innrásina fyrir fimm vikum. Zelenskíj sagði að það væri á „ábyrgð Sameinuðu þjóðanna“ að samkomulagið dygði til að losa um hömlur á útflutningi matarbirgðanna.

„Þetta sannar aðeins eitt: það er sama hvað Rússar segja eða hverju þeir lofa, þeir finna leið til að framkvæma það ekki,“ sagði Zelenskíj í reglulegu ávarpi sínu að kvöldi laugardags 23. júlí.

Tyrkir sem gegndu lykilhlutverki við að leiða deiluaðila að samningaborðinu sögðust hafa „áhyggjur“ af árásum Rússa.

Um leið og hann lýsti þessum áhyggjum sagði Hulusi Akar, varnarmálaráðherra Tyrkja, að Rússar hefðu sagt tyrkneskum yfirvöldum að þeir ættu „alls engan hlut“ að árásinni og þeir væru að fara í saumana á málinu.

Liz Truss, utanríkisráðherra Breta, sagði að atvikið sýndi að enginn gæti „treyst orði af því sem Pútin segði“. Bandaríkjastjórn leggur höfuðáherslu á ábyrgð Rússa á því að takist að framkvæma útflutnings-samkomulagið.

Með samkomulaginu átti að opna „öruggar leiðir“ fyrir skip með kornið en þörfin fyrir það vex dag hvern um heim allan. Tundurdufl hafa verið lögð víða í Svartahafi og skyldu þau fjarlægð á „öruggu siglingaleiðunum“ auk þess sem skipin sjálf yrðu friðhelg.

Samkomulagið er gert til 120 daga og á þeim tíma er talið að flytja megi milljónir tonna úr korngeymslunum í Úkraínu.

Samkomulaginu var sérstaklega fagnað í Afríku þar sem íbúar álfunnar eiga mikið undir því að fá korn frá Úkraínu, þaðan koma 40% af hveiti í World Food Programme, það er matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, og 10% af allri heimsframleiðslunni.

 

Heimild: Euronews.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …