
Rússar vinna nú að smíði risakafbátar sem ætlað er hlutverk á norðurslóðum og á Norður-Atlantshafi. Verður þetta stærsti kafbátur Rússa en grunnhönnun hans er að finna í kafbátum af Oscar-II gerð sem hafið var að smíða á Kóla-skaga árið 1992 án þess að smíðinni yrði lokið. Oscar-II bátar svipar til kafbátarins Kursk sem sökk í Barentshafi í ágúst 2000.
Nýi kafbáturinn er kallaður Belgorod og er talið líklegt að honum verði hleypt af stokkunum í Severodvinsk á næsta ári. Í kafbátnum verður sérbúnaður til djúpköfunar, þar á meðal annar kafbátur sem nota má bæði í hernaðarlegum og borgaralegum tilgangi. Þá verða einnig mannlausir kafbátar um borð í Belgorod.
Í grein á Independent Barents Observer miðvikudaginn 3. maí eftir Thomas Nilsen ritstjóra segir að nýi kafbáturinn verði 30 m lengri en Oscar-II kafbáturinn, 184 m í stað 154 m. Hann verður því 11 m lengri en Thypoon-kafbátar Rússa sem voru smíðaðir á níunda áratugnum.
Í rússneska blaðinu Izvestia segir að nýi kafbáturinn verði notaður til að kanna landgrunn Rússa í Norður-Íshafi. Þá sé einnig ætlunin að nýta kafbátinn til að leggja út „neðansjávar fjarskiptakerfi“. Segir Thomas Nilsen að þar sé ef til vill um að ræða eftirlitskerfi á borð við SOSUS-kerfið sem Bandaríkjamenn notuðu meðal annars héðan frá Íslandi í kalda stríðinu til varna í GIUK-hliðinu.
„Kafbáturinn mun nýtast til að koma upp alhliða neðansjávar eftirlitskerfi í þágu hersins á landgrunni Norðurhafa,“ segir Vadim Kozjulin, prófessor við vísindaakademíu hersins, við Izvestia. Hann segir að Belgorod verði ekki aðeins stærsti kjarnorkuknúni kafbátur heims hann verði einnig: „Einstæðasti kafbátur rússneska flotans.“
Tveir kjarnakljúfar knýja Belgorod. Þá mætti einnig knýja smákafbátana um borð í móðurskipinu með kjarnorku. Bent er á að Rússar hafi undanfarin ár unnið skipulega að endurnýjun á kafbátum sínum til sérstakra verkefna. Þar séu smá-kafbátar, njósna- og rannsóknar-kafbátar auk stærri báta.
.