Home / Fréttir / Rússar slá ekkert af í flotamálum á norðurslóðum

Rússar slá ekkert af í flotamálum á norðurslóðum

admiralkuznetsov-kolabay-gov-murman
Flugþilfarið á Admiral Kuznetsov.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti ritaði fimmtudaginn 20. júlí undir stefnuskjal þar sem finna má háleit markmið fyrir rússneska herflotann. „Rússland mun ekki líða neinu öðru ríki að standa sér umtalsvert framar varðandi herflota og lögð verður áhersla á að styrkja stöðu landsins sem annars mesta flotaveldis heims,“ segir í stefnunni.

Atle Staalesen, blaðamaður hjá Barents Observer, segir fimmtudaginn 3. ágúst að samþykkt stefnuskjalsins beri með sér að rússnesk stjórnvöld hafi árum saman aukið útgjöld til hernaðarmála og herflotans. Þess sé að vænta að haldið verði áfram á sömu braut.

Markmiðið er ekki aðeins að efla langdrægan kjarnorku-kafbátaflota Rússa heldur einnig að þróa ný varnarkerfi neðansjávar þar á meðal róbóta. Unnið er að hönnun nýs flugmóðurskips og frá 2025 mun flotinn ráða yfir nýjum ofurhraða eldflaugum.

Skjalið ber heitið: Grunnþættir í flotastefnu rússneska sambandsríkisins fram til ársins 2030.

Norðurflotinn, stærsti og öflugasti fimm flota Rússa, gegnir áfram lykilhlutverki. Heimahafnir hans eru á Kóla-skaga og skip hans eiga greiða leið út á heimshöfin um Norður-Íshaf.

Í skjalinu segir að erlend ríki þrengi stöðugt svigrúm Rússa í Norður-Íshafi. Þar segir:

„Þjóðaröryggi er ógnað vegna áforma Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra um að ráða lögum og lofum á heimshöfunum, þar á meðal á Norður-Íshafi.“

Því er haldið fram að vegna þess hve hafsbotninn sé auðugur af kolvetni þrýsti önnur ríki á að fá þar aðstöðu. Þá vinni erlendir aðilar að því að veikja ráð Rússa yfir Norðurleiðinni, siglingaleiðinni milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir norðan Rússland:

„Rússar eru beittir efnahagslegum, pólitískum, lögfræðilegum og hernaðarlegum þrýstingi í þeim tilgangi að þrengja að siglingum þeirra um heimshöfin og veikja tök þeirra á Norðurleiðinni – sögulegri þjóðleið þeirra til flutninga og samgangna.“

Kynntar eru ýmsar mótvægisaðgerðir. Ætlunin er að herða gæslu landamæra ríkisins á hafi úti, þar á meðal landgrunnsins. Haldið verður áfram að reisa stöðvar og önnur mannvirki á fjarlægum norðurskautseyjum. Stöðvarnar eiga að gegna tvíþættu hlutverki: styðja við borgaralegar siglingar og ferðir her- og landamæraflotans. FSB, öryggislögreglan, annast strand- og landamæragæslu.

Þótt víða sé vikið á neikvæðan hátt að Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra innan NATO er einnig talið nauðsynlegt að stofna til samstarfs við aðrar þjóðir, einkum að því er varðar FSB og strandgæsluna.

Mælt er með sérgreindri samvinnu FSB við stofnanir annarra ríkja einkum varðandi landamæravörslu. Atle Staalesen segir það fagnaðarefni fyrir Norðmenn sem hafi árum saman átt náið samstarf við Rússa við strandgæslu.

Í maí í ár tóku rússnesk og norsk skip þátt í sameiginlegri æfingu á Barentshafi sem snerist um leit og björgun og viðbrögð vegna olíuslyss.

Í nýja rússneska skjalinu er ekki rætt um áhrif loftslagsbreytinga á ferðir flutningaskipa og herskipa á norðurslóðum.

 

 

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …