Home / Fréttir / Rússar skjóta ofurhljóðfrárri stýriflaug úr kafbáti

Rússar skjóta ofurhljóðfrárri stýriflaug úr kafbáti

Rússar sendu þessa mynd frá sér til að sýna ofurhljóðfráu flaugina koma upp úr haffletinum.

Rússnesk stjórnvöld skýrðu frá því mánudaginn 4. október að fyrsta tilraunaskot ofurhljóðfráu stýriflaugarinnar Tsirkon (Zircon) frá kafbáti hefði heppnast vel. Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur opinberlega borið lof á þessa gerð stýriflauga og segir hana hluta af nýrri kynslóð vopnakerfa sem standi öllum keppinautum framar.

Í júlí 2021 var Tsirkon-flaug skotið í fyrsta skipti frá herskipi en nú var komið að því að nota kafbát sem skotpall. Um var að ræða kjarnorkuknúinn Severodvinsk-kafbát og var flauginni skotið úr honum á Barentshafi að völdu skotmarki hennar.

Á lággæða myndskeiði rússneska varnarmálaráðuneytinu frá tilraunaskotinu má sjá flaugina koma upp frá kafbátnum, bjarminn af flauginni lýsir upp næturhimininn og speglast á haffletinum.

Í frétt Reuters-fréttastofunnar segir að meðal vestrænna sérfræðinga ríki efasemdir hve langt Rússar hafi náð við þróun nýrrar kynslóðar vopna. Þeir viðurkenna hins vegar að erfitt sé að finna og fljúga í veg fyrir ofurhljóðfráar flaugar vegna flughæðar þeirra, hraða og sveigjanleika.

Í júlí 2021 var greinilega gripið til þess ráðs að gera óskýrar myndirnar af því þegar S-500 flugskeytakerfið var nota og villa þannig um fyrir þeim sem vildu rýna í myndirnar til að greina smáatriði.

Árið 2018 kynnti Pútin til sögunnar ýmis ofurhljóðfrá vopnakerfi. Er ræðu hans enn minnst vegna þess hve herskár forsetinn var. Hann sagði Rússa geta skotið á næstum hvern einasta stað á jörðinni og farið framhjá eldflaugavörnum Bandaríkjanna.

Skoða einnig

Íransforseti ferst í þyrluslysi – harðlínumaður klerkaveldisins

Ebrahim Raisi, forseti Írans og harðlínumaður í íranska klerkaveldinu, fórst í þyrluslysi í fjalllendi í …