
Rússar hafa boðað að þeir ætli að gera tilraunir með flugskeyti á hafinu undan Mið-Noregi á sama tíma og NATO-æfingin Trident Juncture fer þar fram segir norska blaðið Klassekampen.
Í blaðinu segir að rússneska æfingin verði á hafinu fyrir utan Mæri, ekki langt frá norsku bæjunum Kristiansund, Molde og Ålesund. Á svæðinu eru margir norskir borpallar.
Æfingin verður dagana 1. og 3. nóvember frá kl. 07.00 að morgni til kl. 14.00 síðdegis hvern dag.
„Okkur er kunnugt um þetta. Æfingunni Trident Juncture verður fram haldið samkvæmt áætlun,“ sagði Ivar Moen liðsforingi í stjórnstöð norska hersins (FOH).
Norska flugumferðarstjórnin, Avinor, fékk tilkynningu um æfinguna frá rússneskum yfirvöldum föstudaginn 26. október.
June Wilhelmsen, sérfræðingur við Norsku utanríkismálastofnunina (NUPI), segir að ekki sé nein tilviljun að Rússar hefji þessa æfingu núna.
„Ég veit þetta ekki með vissu. Á hinn bóginn er mjög líklegt að þetta sé einskonar andsvar við Trident Juncture,“ sagði hún.
Þá setur hún æfingu Rússa einnig í samhengi við aukna spennu milli NATO og Rússa.
Heimild: ABC Nyheter