
Frakkar fagna því sérstaklega að Rússar hafa skilað þremur varðbátum frá Úkraínu sem þeir hertóku í fyrra á Svartahafi. Telja Frakkar að með ákvörðun sinni auðveldi Rússar umræður á fundi í París í desember þar sem reynt verður að leysa úr deilum Rússa og Úkraínumanna.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði mánudaginn 18. nóvember að aðgerð Rússa stuðlaði að trausti í samtölum Rússa og Úkraínumanna. Áður hafði Macron rætt við Vladimir Pútin Rússlandsforseta í síma.
Rússar létu skipin af hendi snemma mánudaginn 16. nóvember.
Ætlunin er að 9. desember 2019 hittist Volodjimíjr Zelenskíj, forseti Úkraínu, og Vladimir Pútin í París ásamt Emmanuel Macron og Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Þetta verður fyrsti fundur Pútins og Zelenskijs síðan sá síðarnefndi var kjörinn forseti Úkraínu í apríl 2019.
Alþjóðasakamáladómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 2016 að stríðið í austurhluta Úkraínu væri „alþjóðleg vopnuð átök milli Úkraínu og Rússlands“. Aðskilnaðarsinnar eru hernaðarlega, stjórnmálalega og fjárhagslega studdir af stjórnvöldum í Moskvu sem vilja kljúfa Úkraínu. Þeir hafa háð stríð gegn stjórnvöldum í Kænugarði sem kostað hefur rúmlega 13.000 manns lífið síðan 2014.
Úkraínsku varðbátarnir þrír – tveir vopnaðir bátar og dráttarbátur – féllu í hendur Rússa 25. nóvember 2018 með hertöku við Kerch-sund undan Krímskaga sem Rússar innlimuðu ólöglega frá Úkraínu í mars 2014.
Rússar segja bátana hafa brotið gegn landhelgi sinni sem Úkraínumenn neita. Rússneska utanríkisráðuneytið sagði í yfirlýsingu 18. nóvember 2019 að bátunum hefði verið skilað eftir að „rannsakendur grandskoðuðu þá“ við að upplýsa „landhelgisbrot“ og ekki væri lengur þörf á að halda þeim í Rússlandi.
Úkraínumenn sögðu hertöku skipanna og handtöku 24 manna í áhöfnum þeirra brot á alþjóðlegum hafréttarlögum.
Hafréttardómstóll Sameinuðu þjóðanna sagði í dómi sínum 25. maí 2019 að Rússar ættu tafarlaust að sleppa áhöfnunum og bátunum þremur.
Sjómönnunum 24 var sleppt úr haldi 7. september 2019 í fangaskiptum milli Rússa og Úkraínumanna þar sem 35 manns frá hvoru landi komu við sögu.
Parísar-fundurinn 9. desember er haldinn innan ramma sem kenndur er við Normandí í Frakklandi og miðar að því að binda enda á átökin í Úkraínu. Hærra settir fulltrúar landanna fjögurra sem starfa innan þessa ramma hafa ekki hist síðan 2016.
Árið 2015 beittu Þjóðverjar og Frakkar sér fyrir Minsk-friðasamkomulaginu svonefnda sem aldrei hefur komið til framkvæmda en eftir símtal Macrons og Pútíns 18. nóvember 2019 sagði í tilkynningu frá Kreml að „hratt og til fulls“ yrði hægt að framkvæma Minsk-samkomulagið yrði vilji til þess staðfestur á Parísar-fundinum.
Zelenskíj hefur lagt sig fram um lausn deilunnar við Rússa eftir að hann var kjörinn forseti. Snemma í október 2019 náðu fulltrúar stjórnvalda í Kænugarði og Moskvu að minnka bilið sín á milli með því að samþykkja að draga herlið beggja aðila til baka frá tveimur átakapunktum í Luhansk-héraði og einum í Donetsk í því skyni að búa í haginn fyrir fjögurra ríkja viðræðurnar í París. Þetta hefur síðan verið gert stig af stigi.