Ljóst er að samningurinn um takmörkun meðaldrægra kjarnaflauga (INF-samningurinn) er í uppnámi enda hafa aðilar hans, Bandaríkjamenn og Rússar, sagt sig frá honum með sex mánaða uppsagnarfresti. Í breska blaðinu The Daily Telegraph er fjallað um málið í leiðara laugardaginn 2. febrúar og þar segir:
„NATO segir að það styðji ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að segja sig frá samningnum um meðaldrægar kjarnaflaugar (INF-samningnum). Þetta skiptir miklu. Gagnrýnendur Trumps munu gera atlögu að ákvörðuninni og segja hana sanna að hann fari sínu fram til að hefja nýtt vígbúnaðarkapphlaup – lengi hefur hins vegar mátt búast við þessu skrefi og skömmin liggur hjá Rússum.
Bandarískir embættismenn hafa áður bent á að Rússar hófu tilraunir með gerð af eldflaugum og stýrifluaugum sem skotið er af landi strax á árinu 2008 þótt það bryti í bága við samninginn; árið 2014 sakaði Obama Bandaríkjaforseti Vladimir Pútin um að brjóta INF-samninginn. Í ályktun 4. desember 2018 sagði NATO að Rússar hefðu „þróað og komið upp flaugakerfi, 9M729, sem … skapar umtalsverða hættu fyrir öryggi á Evru-Atlantshafssvæðinu.“ Í tilkynningu NATO frá því í gær [1. febrúar] til stuðnings síðustu aðgerð Bandaríkjastjórnar mótmælir bandalagið því að Rússar neiti stöðugt því sem sé almennt viðurkennt og geri ekkert til að fara að samningnum. Þar segir í lokin að líði sex mánaða uppsagnarfrestur Bandaríkjastjórnar á samningnum án þess að Pútín fari eftir honum beri „Rússar einir ábyrgð að samningurinn renni sitt skeið“.
Enginn með heilbrigða skynsemi fagnar þessu, við vitum þó núna hvernig málum er háttað. Þetta leiðir oft af því sem Trump gerir: hann velur hreinskilni í stað diplómatísks fjálgleika sem leiddi ekki síst til þess í stjórnartíð Obama að ekkert gerðist. Það er tímabært að viðurkenna að NATO-ríkin leggja ekki nóg fram til varnarmála; það er tímabært að setja Kínverjum stólinn fyrir dyrnar vegna þjófnaðar á hugverkum; tímabært að horfast í augu við nýjan veruleika í Sýrlandi.
Rússar hafa hins vegar verið á óvenjulegu gráu svæði af hálfu Trump-stjórnarinnar. Trump hefur leitað eftir samtali, jafnvel sáttum – Bandaríkjastjórn hefur engu að síður séð Úkraínumönnum fyrir vopnum og staðið nærri átökum við Rússa í Sýrlandi. Síðasts skref stjórnarinnar er þó vonandi staðfesting á því að meira samræmi og samhengi sé í stefnunni. Í húfi er valdajafnvægi í heiminum og friður í Evrópu: meðaldrægum flaugum má auðvitað beita gegn aðildarríkjum NATO. Ólíklegt er að stjórn sem hefur klofið Úkraínu í tvennt, hrifsað Krímskaga og gert tilraunir til launmorða á bresku landi telji óhæfilegt að beita kjarnavopnum í þvingunarskyni.
Hitt ber einnig að vona að þessi riftun opni augu ráðamanna í Moskvu fyrir því hve hættulegan leik þeir leika og knýi þá til að skoða hug sinn. Það er dæmigert fyrir Rússa að taka viðbragð sé þeim mætt af styrk: þeir kanna hvað þeir komast langt, finni þeir veikan blett þrýsta þeir á hann sér til hagsbóta. NATO verður að sýna staðfestu.“