
Rússar hafa sett upp skotpalla fyrir skammdrægar skotflaugar af gerðinni Tor-M2DT í herstöðvum við landamæri Noregs og Finnlands. Tilraunir voru gerðar með flaugarnar á Novaja Zemlja í júlí 2019 og nú hefur yfirstjórn rússneska Norðurflotans tilkynnt að þessi nýja norðurslóða-skotflaug verði á Petsamó-svæðinu.
Petsamó-dalurinn er á Kóla-skaga við landamæri Noregs og Finnlands. Fjarlægð rússnesku herstöðvanna frá Noregi er aðeins um 10 km.
Innan við 100 km eru frá rússnesku skotpöllunum að Vardø, norska bænum þar sem Globus-ratstjárnar eru á vegum leyniþjónustu norska hersins.
Hafnarbærinn Petsamó var áður hluti Finnlands. Þangað fór strandferðaskipið Esja haustið 1940 til að sækja 258 Íslendinga sem höfðu orðið innlyksa á meginlandi Evrópu vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Bærinn heitir nú Pechenga og tilheyrir Rússlandi. Sovétmenn tóku þetta landsvæði af Finnum í lok seinni heimstyrjaldarinnar.
Í tilkynningu Norðurflotans segir að Tor-M2DT skotpallarnir séu fluttir á þessa staði til að verja rússneska lofthelgi.
Þetta er ekki eina nýja skotflaugakerfið sem Rússar hafa nýlega flutt að landamærum Noregs. Í júlí voru Bal-strandvarnaflaugar flutta til Sredníj-skaga við Barentshaf nálægt Vardø. Kerfið er einkum hannað til árása á skip en því má einnig beita gegn skotmörkum á landi.
Heimild: Barents Observer