Home / Fréttir / Rússar senda stýriflaugar frá herskipum á Miðjarðarhafi á skotmörk í Sýrlandi

Rússar senda stýriflaugar frá herskipum á Miðjarðarhafi á skotmörk í Sýrlandi

 

Rússneskri stýriflaug skotið á loft.
Rússneskri stýriflaug skotið á loft.

 

Rússar hertu enn hernaðaraðgerðir sínar í Sýrlandi föstudaginn 19. ágúst þegar þeir skutu í fyrsta sinn stýriflaugum frá herskipum á Miðjarðarhafi á skotmörk í landinu, nokkrum dögum eftir að þeir hófu loftárásir þar með flugvélum frá flugvelli í Íran.

Sérfræðingar benda á að með því að beita herafla sínum á þennan hátt sýni Rússar að þeir geti gert árásir úr öllum áttum í heimshluta þar sem þeir hafa leitast við að styrkja valdastöðu sína. Þeir senda sprengjuflugvélar frá Íran, flaugar frá herskipum á Kaspía-hafi, þotur frá Latakia-flugvelli í Sýrlandi og nú flaugar frá herskipum á Miðjarðarhafi.

Bandaríkjamenn hafa einnig stigið nýtt skref í hernaðinum í Sýrlandi með því að beita styrk sínum gegn loftárásum hers Sýrlandsstjórnar til að vernda eigið lið og þá sem það styður. Bandaríska varnarmálaráðuneytið sendi sýrlenskum stjórnvöldum skýra viðvörun eftir að flugvélar þeirra gerðu árásir á svæði undir yfirráðum Kúrda þar sem bandarískir hermenn dvöldust.

Svo virðist sem viðræður hafi siglt í strand milli Rússa og Bandaríkjamanna um að þeir standi saman að aðgerðum gegn óvinveittum hryðjuverkamönnum í Sýrlandi. Rússar og sýrlenska stjórnin hafa hert loftárásir sínar undanfarið án þess að nokkur pólitísk lausn á stríðinu sé í sjónmáli.

Rússar og Bandaríkjamenn vilja báðir koma Daesh (Ríki íslams) fyrir kattarnef í Sýrlandi. Þeir beita hins vegar hvor um sig eigin herafla í sókninni gegn Daesh án þess að stilla saman strengina. Þá styðja þeir hvor um sig ólíka aðila að átökunum innan Sýrlands. Rússar standa að baki Bashar al-Assad Sýrlandsforseta en Bandaríkjamenn styðja andstæðinga hans.

Rússnesku stýriflaugarnar skipta ekki sköpum í stríðinu. Það urðu hins vegar þáttaskil hjá Rússum þegar þeir fengu aðstöðu í Íran fyrir langdrægar sprengjuþotur sínar.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði föstudaginn 19. ágúst að þremur stýriflaugum hefði verið skotið frá tveimur herskipum úr rússneska Svartahafsflotanum þegar þau voru undan strönd Sýrlands á Miðjarðarhafi.

Skotið var flaugum af Kalibr-gerð sem eru nýjar í vopnabúri Rússa. Þær líkjast bandarísku Tomahawk-stýriflauguunum. Með Kalibr má flytja kjarnorkusprengju eins og með Tomahawk.

Að aðeins þremur flaugum hafi verið skotið er í raun smáræði við allar aðrar loftárásir sem Rússar gera dag hvern í Sýrlandi. Árásin með flaugunum var því öðrum þræði gerð til að sanna getu Rússa til slíkra árása frá Miðjarðarhafi.

 

Heimild: NYT

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …