Home / Fréttir / Rússar senda sprengjuþotur i bakgarð Dana yfir Norðursjó

Rússar senda sprengjuþotur i bakgarð Dana yfir Norðursjó

Danskar F-16 orrustuþotur voru sendar til móts við rússnesku vélarnar

Danski flugherinn sendi að morgni mánudagsins 14. ágúst tvær F-16 orrustuþotur til móts við rússneskar sprengjuvélar sem flugu í áttina að danskri lofthelgi á Norðursjó. Yfirstjórn hollenska hersins sagði fyrst frá atvikinu þegar rússnesku vélarnar stefndu í átt að hollensku lofthelginni.

Danski majórinn og herfræðingurinn Esben Salling Larsen segir við dönsku Ritzau-fréttastofuna að með fluginu vilji Rússar minna NATO á hernaðarmátt sinn.

„Rússar gefa okkur merki um að þeir geti ráðist aftan okkur,“ segir majórinn við Ritzau.

Esben Salling Larsen segir að þótt Danir beini eftirliti sínu mest í áttina að Eystrasalti verði þeir einnig að fylgjast með loftrýminu yfir Norðursjó.

„Rússar vita vel að herafla og hergögnum verður safnað saman á Jótlandi. Þeir vilja sýna að þeir geti ráðist á landið úr báðum áttum.“

Samið hefur verið um að höfnin í Esbjerg á vesturströnd Jótlands verði notuð til að taka á móti liðsafla og hergögnum sem koma sjóleiðis til að styrkja varnir Evrópu.

Majórinn minnir á Rússar sendi reglulega flugvélar suður með strönd Noregs frá Kólaskaga allt suður í Norðursjó. Þar séu oft sprengjuvélar á ferð. Sóknarafl þeirra ráðist af því hvort þær séu með stýriflaugar um borð.

„Vélarnar þurfa í raun ekki að fljúga inn í lofthelgi. Þeim dugar að skotfæri þeirra nái til viðkomandi herstöðva í Norður-Evrópu,“ segir Esben Salling Larsen.

Norski flugherinn sendi F-35 orrustuþotur 24 sinnum á loft á árinu 2022 til að fljúga í veg fyrir 46 flugvélar nálægt norskri lofthelgi.

Rússar flugu í veg fyrir Norðmenn

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði mánudaginn 14. ágúst að rússnesk MiG-29-orrustuþota hefði verið send í veg fyrir norska hervél skammt frá rússneskri lofthelgi yfir Barentshafi.

Norska herstjórnin sagði að norsk P8 Boeing-kafbátaleitarvél hefði verið á reglulegu eftirlitsflugi og inngrip Rússa hefði verið með öllu tilefnislaust.

Breski flugherinn á loft

Breska varnarmálaráðuneytið skýrði frá því að Typhoon-orrustuþotur breska flughersins hefðu að morgni mánudagsins 14. ágúst flogið í veg fyrir tvær rússneskar Bear-sprengjuvélar nálægt Hjaltlandi fyrir norðan loftrými NATO.

Bresku vélarnar komu frá flugherstöðinni í Lossiemouth á norðurströnd Skotlands.

Atvikið varð eftir að Danir höfðu flogið til móts við rússneskar vélar við lofthelgi sína á Norðursjó.

Bandarískar sprengjuþotur á Keflavíkurflugvelli

Sunnudaginn 13. ágúst komu þrjár bandarískar B-2 Spirit torséðar sprengjuþotur til Íslands með allt að 200 manna liðsafla sem mun hafa aðsetur á öryggissvæðinu í Keflavík næstu vikur á meðan æfingar vélanna fara fram yfir Norður-Evrópu.

Þetta er í þriðja skipti sem flugsveit af þessu tagi kemur til Íslands.

Síðsumars 2019 sendi bandaríski flugherinn í fyrsta sinn háþróuðustu sprengjuþotu sína, B-2 Spirit, til eldsneytistöku á Keflavíkurflugvelli. Síðsumars 2021 voru þrjár þotur af þessari gerð í tæpar þrjár vikur til æfinga frá vellinum.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …