Home / Fréttir / Rússar senda liðsauka til úrvinda hersveita í suðaustur Úkraínu

Rússar senda liðsauka til úrvinda hersveita í suðaustur Úkraínu

Úkraínskir fótgönguliðar leggja á ráðin í byrjun águst 2023.

Rússar flytja nú aukinn herafla til suðausturhluta víglínunnar í stríðinu við Úkraínu og bregðast á þann hátt við sókn hers Úkraínu í Zaporizjzja-héraði að mati Mykola Urshalovitsj, ofursta og foringja í þjóðvarðliði Úkraínu, sem ræddi mánudaginn 11. september við miðilinn Kyiv Independent.

Að sögn bandarísku hugveitunnar Institute for the Study of War (ISW) sækir her Úkraínumanna nú fram á ýmsum stöðum. Upptökur frá sunnudeginum 10. september sýna að úkraínskar hersveitir færast bæði austar og sunnar, nánar sagt í Donetsk og Zaprorizjzja héruðum.

Þetta má til dæmis sjá í nágrenni við bæinn Bakhmut þar sem Úkraínumenn hafa á undanförnum tveimur vikum endurheimt um þrjá ferkílómetra.

Berlingske í Danmörku leitaði mánudaginn 11. september álits hjá herfræðingi í danska Varnarmálaháskólanum, Forsvarsakademiet, Anders Puck Nielsen. Hann segir að herflutningar Rússa til suðaustur varnarlínunnar sýni að þrengt sé að þeim.

„Við okkur blasir að Rússar reyna að fylla upp í skörð með liðsflutningum. Þeir flytja hermenn frá norður víglínunni og senda þá inn í suðurhluta Úkraínu,“ segir Anders Puck Nielsen.

Hann segir að skoða verði þetta í samhengi við fréttir um að Úkraínumenn hafi brotist í gegnum rússnesku varnarlínurnar í suðurhluta Úkraínu. Rússa skortir hermenn en þeir reyna að stöðva sóknina með því að skipa liðinu upp á nýtt.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti ræddi sókn manna sinna undanfarna sjö daga í daglegu sjónvarpsávarpi sínu sunnudaginn 10. september.

„Það er hreyfing á Tavrija-svæðinu, það er hreyfing á Bakhmut-svæðinu,“ sagði Zelenskíj.

Í síðustu viku tilkynnti Sergej Shoigu, rússneski varnarmálaráðherrann, að Rússar legðu höfuðáherslu á að verja Zaporizjzja-hérað í suðaustur Úkraínu. Hann hélt því fram án þess að nefna nokkuð máli sínu til sönnunar að Úkraínustjórn hefði sent varaliðssveitir til Zaporizjzja-héraðs, sveitir hermanna sem hefðu hlotið þjálfun á Vesturlöndum.

Í margar vikur hafa verið hörð átök í Zaporizjzja-héraði og berast margar fréttir um að Úkraínuher hafi náð að leggja þar undir sig land með því að hrekja Rússa á brott. Sumir telja að bardagar á þessum slóðum kunni að skipta sköpum um framvindu stríðsins.

Rússar hafa lengi reynt að ná frumkvæði með hernaðaraðgerðum í norðurhluta Úkraínu. Nú hafa þeir hins vegar sagt að þeir ætli að einbeita sér að bardögum annars staðar.

„Rússar reyna að færa aðgerðir sínar í jákvæðan búning þegar að þeim er þrengt. Þeir gera það oft,“ segir Anders Puck Nielsen.

Hann telur að áherslubreytingin og flutningur liðsaflans sýni styrk Úkraínuhers í suðaustri og margra mánaða ákafir bardagar þar séu nú að skila árangri. „Rússarnir eru úrvinda,“ segir herfræðingurinn og bætir við:

„Í marga mánuði hefur Úkraínumönnum ekki tekist að brjótast í gegnum rússnesku varnarlínurnar, skyndilega virðist sem þeim takist það. Rússarnir eru aðþrengdir.“

Heimild: Berlingske.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …