Home / Fréttir / Rússar senda herskip í átt að Íslandi vegna NATO-æfingar

Rússar senda herskip í átt að Íslandi vegna NATO-æfingar

Myndin af rússneska orrustu-beitiskipinu Pétri Mikla er tekin úr norskri eftirlitsvél yfir Barentshafi sunnudaginn 13. mars 2022. Skipið er á siglingu í átt til Íslands.

Tugir þúsunda hermanna frá 27 þjóðum taka þátt í NATO-heræfingunni Cold Response sem hófst undir forystu Norðmanna mánudaginn 14. mars. Auk NATO-þjóða eru Svíar og Finnar einnig þátttakendur í æfingunni. Ekki hefur verið efnt til jafn viðamikillar heræfingar fyrir norðan heimskautsbaug frá því á níunda áratugnum. Æfingin stefndur fram í miðjan apríl.

Skipulagning æfingarinnar hófst mörgum árum áður en Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022. Vegna stríðsins í Úkraínu og spennunnar mill Rússa og Vestursins sjá menn Cold Response-æfiunguna nú í öðru ljósi en ella hefði verið.

Austan við norður landamæri Noregs er Kóla-skaginn. Þar eru heimahafnir langdrægra rússneskra kjarnorkukafbáta sem sífellt eru í viðbragðsstöðu en brjóstvörn þeirra nær út á N-Atlantshaf, allt að norðaustur horni Íslands. Norðurfloti Rússa á einnig heimahafnir á Kóla-skaga. Herskip úr honum voru send til Svartahafs vegna hernaðar Rússa gegn Úkraínu, þar á meðal þrjú landgönguskip. Á leið sinni suður að Miðjarðarhafi efndu rússnesk herskip til æfingar suðvestur af Írlandi.

Meginmarkmið Cold Response-æfingarinnar er að æfa liðsflutninga til Norður-Noregs og þjálfa hermenn frá þátttökuríkjunum í hernaði á norðurslóðum. Auk hermanna tekur mikill fjöldi flugvéla þátt í æfingunni auk um 50 skipa.

Á norsku vefsíðunni Barents Observer segir þriðjudaginn 15. mars að sunnudaginn 13. mars hafi áhöfn í norskri eftirlitsflugvél séð til ferða tveggja rússneskra herskipa á Barentshafi fyrir norðan Finnmörk, nyrsta fylki Noregs. Annað þeirra var Pjotr Velikíj, Pétur mikli, stærsta orrustuskip Rússa sem búið er tíu stýriflaugum, loftvarnaflaugum og öðrum vopnum. Kjarnorkuknúna orrustu-beitiskipið er að jafnaði stjórnskip þegar Norðurflotinn efnir til æfinga á Barentshafi undan Kóla-skaga. Það eru nokkur ár síðan skipinu var síðast siglt út á Noreghaf, milli Noregs og Íslands.

Tundurspillirinn Severomorsk er í för með Pjotr Velikíj. Bæði skipin eiga heimahöfn í Severomorsk fyrir norðan Múrmansk.

Ivar Moen, talsmaður norska hersins, sagði skipin taka stefnu á Noregshaf, miðja vegu milli Norður-Noregs og Íslands.

Rússar sendu frá sér tilkynningu um hættusvæði fyrir flugmenn, NOTAM (Notice to Airmen), sem gildir frá 15. til 17. mars fyrir vestan Lófóten og utan aðalæfingasvæðis Cold Response.

Ivar Moen sagði ekki koma á óvart að rússneski flotinn léti sjá til sín undan strönd Noegs á æfingatímanum. Það yki ekki á spennu og haggaði ekki við Cold Response æfingunni.

Rússar tilkynntu fyrir tveimur vikum að engir sérstakir fulltrúar kæmu frá þeim til að fylgjast með Cold Response.

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …