Home / Fréttir / Rússar senda hergögn og hermenn til Venesúela

Rússar senda hergögn og hermenn til Venesúela

Rússnesk vél á flugvellinum við Caracas sunnudaginn 24. mars.
Rússnesk vél á flugvellinum við Caracas sunnudaginn 24. mars.

Rússar eru helstu bandamenn Nicolas Maduros, forseta Venesúela. Tvær rússneskar flugvélar með hergögn og hermenn lentu laugardaginn 23. mars á Simon Bolivar-flugvellinum við Caracas.

Þýska fréttastofan Deutsche Welle (DW) sagði frá þessu mánudaginn 25. mars. Í fréttinni segir:

  • Iljushín IL-62 farþegaþota og Antonov AN-124 flutningavél flugu frá Moskvu um Sýrland.
  • Um borð í vélunum voru 100 hermenn, Vasilíj Tonkoshkurov, herráðsforingi landhermanna, og 35 tonn af tækjum að sögn heimablaðamannsins Javiers Mayorca.
  • Rússneska ríkisfréttastofan Sputnik sagði að flugvélarnar hefðu flutt tæki og mannafla til að staðið yrði við hertæknilega samninga.
  • Embættismaður stjórnvalda Venesúela sagði rússneska hermenn koma í heimsókn til að ræða þjálfun í meðferð tækja og viðhald auk stefnumótunar.
  • Flutningavélin fór frá Venesúela sunnudaginn 24. mars.

Nicolas Maduro, starfandi forseti Venesúela, telur að Bandaríkjastjórn reyni að bola sér frá völdum með hervaldi og setja Juan Guadió, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, í sinn stað. Rússar hafa birst á vettvangi sem lykilbandamenn Maduros í baráttu hans til að halda völdum.

Í desember 2018 sendu Rússar tvær langdrægar spengjuvélar af Tu-160 gerð til Venesúela. Fyrir þremur mánuðum efndu her Rússa og her Maduros til æfinga í Venesúela. Sættu æfingarnar gagnrýni frá Washington þar sem menn töldu að í þeim fælist ögrun við öryggi á svæðinu.

 

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …