Home / Fréttir / Rússar senda hælisleitendur á reiðhjólum til Finnlands í 22 stiga frosti

Rússar senda hælisleitendur á reiðhjólum til Finnlands í 22 stiga frosti

Hælisleitendurnir við finnsku landamærastöðina í Salla.

Síðdegis mánudaginn 20. janúar bárust fréttir um að 35 hælisleitendur hefðu komið á reiðhjólum í 22 stiga frosti yfir finnsku landamærin gagnvart Rússlandi í finnska bænum Salla í austurhluta Lapplands.

Ekki hefur verið upplýst hvernig þeir komust að landamærunum í Rússlandi. Næsti rússneski bærinn, Kandalaskha, er í 167 km fjarlægð frá landamærunum. Bærinn er á suðurhlið Kólaskagans.

Í frétt á Barents Observer í Noregi segir að á þessum slóðum hafi hælisleitandi orðið úti í vetrarkulda árið 2016 á meðan hann beið eftir að rússnesk landamærastöð yrði opnuð.

Finnska ríkisstjórnin ákvað í föstudaginn 17. nóvember að loka fjórum landamærastöðvum í suðaustur Finnlands vegna umtalsverðrar fjölgunar á ferðum um þær frá Rússlandi.

Það er mat finnskra yfirvalda að rússneskir ráðamenn í Kreml reyni að beita Finna þrýstingi og vilji skapa úlfúð í finnsku samfélagi vegna stuðnings Finna við Úkraínumenn og vegna aðildar Finnlands að NATO.

Finnska ríkisútvarpið, Yle, birti mánudaginn 20. nóvember frétt frá rússnesku TASS-fréttastofunni um að Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, hafnaði ásökunum um að rússnesk yfirvöld sendu hælisleitendur að finnsku landamærunum. Þau væru fyrir þá sem ættu rétt á að komast yfir þau. Rússneskir landamæraverðir færu í öllu eftir opinberum verklagsreglum.

Peskov sagði að erfitt væri við málið að eiga þar sem ekkert samtal væri lengur á milli finnskra og rússneskra stjórnvalda. Það væri þó ekki Rússum að kenna, þeir hefðu ekki átt frumkvæði að því að slíta sambandinu. Peskov sagði að finnska ríkisstjórnin léti „rússagrýluna“ stjórna sér.

Finnska landamæravarslan segir að um liðna helgi hafi rússneskir landamæraverðir af ásetningi sent skilríkjalausa hælisleitendur að finnskum landamærahliðum og bannað þeim að snúa aftur inn í Rússland.

Síðdegis sunnudaginn 19. nóvember var efnt til mótmæla í bænum Lappeenranta í Austur-Finnlandi og þess krafist að finnska ríkisstjórnin opnaði einhverjar landamærastöðvar að nýju. Sagði fréttaritari Yle  að milli 200 og 300 manns hefðu komið saman við ráðhús bæjarins.

Margir íbúar á þessum slóðum eiga ættmenni austan landamæranna, í Rússlandi, og vilja að ekki sé algjörlega höggvið á fjölskyldubönd. Aðalkrafa þessa fólks er að á einum stað verði að minnsta kosti heimilt að fara á milli landanna.

Finnska ríkisstjórnin hefur ekki lokað öllum landamærahliðum til Rússlands í norðurhluta Finnlands en landamærin eru rúmlega 1.300 km löng og finnst fólki í suðri ósanngjarnt að gripið sé til þessara ráðstafna á heimaslóðum þess þegar jólin ganga í garð.

Ferð 35 hælisleitenda á reiðhjólum um landamærastöðina lengst í norðri kann að verða til þess að finnska ríkisstjórnin loki öllum landamærahliðum gagnvart Rússlandi.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …