Home / Fréttir / Rússar senda eldflaugakafbát að strönd Frakklands – hvers vegna?

Rússar senda eldflaugakafbát að strönd Frakklands – hvers vegna?

 

Rússneskur Delta-kafbátur.
Rússneskur Delta-kafbátur.

Á vefsíðu Brookings í Washington (brookings.edu) birtist þriðjudaginn 15. mars grein eftir Steven Pifer, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu og sérfræðing í afvopnunarmálum hjá Brookings-stofnuninni. Pifer veltir fyrir sér hvers vegna Rússar hafi verið að veifa kjarnorkuvopnum sínum með því að senda kafbát búinn langdrægum kjarnorkueldflaugum í janúar 2016 til Biscaya-flóa undan strönd Frakklands. Ekki hafi verið nein hernaðarleg ástæða til þess arna. „Var þetta nýjasta tilraun Rússa til að hræða með kjarnorkuvopnum?“ spyr Pifer.

Hann minnir á að langdrægar eldflaugar búnar kjarnaoddum um borð í kafbátum (SLBM-flaugar) hafi um langt skeið verið hluti kjarnorkuherafla Bandaríkjamanna og Rússa. Þær séu mikilvægasti hluti langdrægs kjarnorkuherafla Bandaríkjanna, á flaugunum séu um 60% af bandarískum kjarnorkusprengjum. Mjög erfitt sé að finna kafbáta neðansjávar og granda þeim.

Til að leynast sé þessum kafbátum jafnan haldið á víðáttumiklum hafsvæðum, sigli þeir nálægt ströndum sé auðveldara að finna þá og þar með verði þeir auðveldara skotmark.

Fréttir um rússneska kafbátinn sem Frakkar fundu birtust fyrir fáeinum dögum. Var sagt að þetta hefði verið Delta-kafbátur. Hann er búinn sextán SS-N-23 SLBM-flaugum sem hver getur borið marga kjarnaodda í allt að 8.000 km fjarlægð. Pifer segir að báturinn hafi ekki þurft að sigla upp undir strönd Frakklands til að ná til skotmarka þar. Delta-kafbátar með heimahöfn á Kóla-skaga geti sent sprengjur til Frakklands þaðan. Sigli kafbáturinn út á opið Noregshaf mitt á milli Grænlands og Noregs geti hann ekki aðeins sent SS-N-23 flaugar hvert á land sem er í Frakklandi heldur einnig í Evrópu allri og til stórs hluta Bandaríkjanna í Norður-Ameríku.

Pifer segir engin hernaðarleg rök mæla með því að rússneskur kafbátur búinn langdrægum eldflaugum sigli inn á Biscaya-flóa. Með því aukist aðeins líkur á að hann finnist – sem greinilega gerðist – og líklegra sé að honum verði grandað.

Þegar Pifer veltir fyrir sér skýringu á ferðum kafbátsins minnir hann á að undanfarin ár, einkum samhliða ólögmætri innlimun Rússa á Krímskaga og hernaðarlegum yfirgangi í austurhluta Úkraínu, hafi Kremlverjar hampað kjarnorkuvopnum meira en áður. Vladimír Pútín Rússlandsforseti nefni mikinn kjarnorkuherafla Rússa oft í ræðum sínum eins og hann óttist að einhverjir gleymi tilvist hans. Þá liggi rússneskir miðlar eins og Sputnik og RT ekki heldur á lofi sínu um kjarnorkumátt Rússa. Á árinu 2015 hafi rússenski sendiherrann í Kaupmannahöfn hótað Dönum kjarnorkuárás.

Ráðamönnum í Mosvku þyki greinilega nokkru skipta að skekja kjarnorkuvopn samtímis því sem þeir verði herskárri í garð Vesturlanda. Þá hafi rússneskar Tu-95 Bear kjarnorkusprengjuvélar oftar heimsótt loftrými nærri Bandaríkjunum, Kanada og NATO-ríkjum í Evrópu á síðasta ári en á næstu þremur til fjórum árum þar á undan. (Bandaríkjamenn hafi reglulega sent langdrægar sprengjuvélar upp að sovéskri lofthelgi í kalda stríðinu en það gerist næstum aldrei núna.)

Grein sinni lýkur Pifer á þessum orðum:

„Í Moskvu virðast menn telja nokkurs virði að skekja kjarnorkuvopn á svona ábyrgðarlausan hátt á sama tíma og þeir hafa mótað herskárri stefnu í garð Vesturlanda. Stundum mætti ætla að innan Kremlar væru menn sem vildu ýta undir þá skoðun að Pútín sé eitthvað smá-bilaður þegar kjarnorkuvopn eru annars vegar. Þetta er allt liður í tilraunum til að hræða aðra.

Þarna kann að finnast skýringin á að kafbátur af Delta-gerð sigldi inn í Biscaya-flóa. Þetta er af sama meiði og að senda Bear-sprengjuvélar að lofthelgi NATO-ríkja, í því felast pólitísk skilaboð að senda kafbát með langdrægar eldflaugar að strönd Frakklands – markmiðið er að auka taugatitring hjá okkur öllum.“

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …