Home / Fréttir / Rússar segjast styðja Sýrlandsforseta gegn Íslamska ríkinu

Rússar segjast styðja Sýrlandsforseta gegn Íslamska ríkinu

Hermenn Sýrlandsstjórnar
Hermenn Sýrlandsstjórnar

Rússnesk stjórnvöld hafa staðfest að þau hafi sent hermenn til Sýrlands. Á Vesturlöndum hafa menn vaxandi áhyggjur af því að þátttaka rússneska hersins í aðgerðum til stuðnings Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og ríkisstjórn hans hafi gert Rússa að beinum aðila borgarastríðinu í landinu.

Rússar leggja her Sýrlands lið vegna þess að þeir telja að aðeins sá herafli hafi afl til að takast á við Íslamska ríkið sagði Dmitríj Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, fimmtudaginn 10. september.

Fyrr þann sama dag var sagt frá því í blaðinu Kommersant í Moskvu að rússnesk stjórnvöld legðu ríkisstjórn Sýrlands til skotvopn, sprengjuvörpur og brynvagna. Í blaðinu sagði að hergögnin væru nauðsynleg til að styrkja sýrlenska herinn í baráttunni við Íslamska ríkið.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur sagt að Rússar veiti Sýrlendingum „umtalsverðan“ stuðning með tækjum, þjálfun og vopnabúnaði,

Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði miðvikudaginn 9. september að „rússneskir hernaðarsérfræðingar“ væru í Sýrlandi til að aðstoða herstjórnendur  þar við að notra rússnesk vopn og önnur tæki.

Hún sagði að Rússar hefðu aldrei farið leynt með „hertæknilega samvinnu“ sína við Sýrlendinga og hefðu um „langt skeið látið þeím í té hergögn á grundvelli gildandi, tvíhliða samninga“. Þá minnti hún á að rússneski flotinn ræki „birgða- og tæknistöð“ í sýrlensku hafnarborginni Tartus,

Zakharova sagði að tækin sem Sýrlendingar hafa fengið frá Rússum séu ætluð „gegn hryðjuverkaógninni“ sem hefði farið út fyrir öll mörk í Sýrlandi og Írak. Hún sagði að um væri að ræða ógn við allt alþjóðasamfélagið og þar á meðal Rússa. Hún bætti við að um 2.000 rússneskir ríkisborgarar berðust með öfgahópum í Sýrlandi og Írak.

Fréttir herma að rússneski flotinn hafi flutt mikið af hergögnum til Sýrlands, í sumum tilvikum stór farartæki.

Reuters-fréttastofan vitnaði í þrjá heimildarmenn í Líbanon miðvikudaginn 9. september sem sögðu að rússneskir hermenn hefðu hafið beina þátttöku í hernaðaraðgerðum við hlið liðsmanna ríkisstjórnar Sýrlands. Einn heimildarmannanna sagði að aðeins „fáeinir“ Rússar tækju þátt í aðgerðunum.

John Kirby, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði 9. september að John Kerry utanríkisráðherra hefði rætt við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og lýst áhyggjum yfir aðild Rússa að stríðinu í Sýrlandi, hún kynni að „auka ofbeldið“ í landinu.

Rússneska fréttastofan TASS vitnaði 9. september í talsmann rússneska sendiráðsins í Teheran, höfuðborg Írans, sem hefði sagt að Íranir hefðu heimilað rússneskum flugvélum á leið til Sýrlands að fljúga yfir land sitt. Daginn áður höfðu Búlgarar neitað Rússum að nota lofthelgi Búlgaríu vegna efasemda um varninginn um borð í þeim. Var þess krafist að vélarnar lentu í Búlgaríu til að skoða mætti hvað í þeim væri.

Omran al-Zoubi, upplýsingaráðherra Sýrlands, sagði sjónvarpsstöð í eigu Hezbollah í Líbanon að fréttir um aukna þátttöku Rússa í stríðinu í Sýrlandi væru „uppdiktaðar af vestrænum njósnastofnunum“.

 

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …