Home / Fréttir / Rússar segjast hafa hrakið hollenskan kafbát frá flugmóðurskipi sínu

Rússar segjast hafa hrakið hollenskan kafbát frá flugmóðurskipi sínu

Rússar segja hollenska kafbátinn hafa verið af Walrus-gerð
Rússar segja hollenska kafbátinn hafa verið af Walrus-gerð

Rússneska varnarmálaráðuneytið skýrði frá því miðvikudaginn 9. nóvember að tveir rússneskir tundurspillar hefðu hrakið hollenskan kafbát frá njósnum um flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov á Miðjarðarhafi. Ráðuneytið segir kafbátinn hafa verið í 20 km fjarlægð frá flugmóðurskipinu þegar stuggað var við honum.

Áður hefur verið sagt frá ferðum Admiral Kuznetsov hér á síðunni en skipinu og fylgdarskipum var siglt frá Kólaskaga milli Íslands og Noregs um Ermarsund og inn í Miðjarðarhaf í október.

Talið er að senda eigi flugvélar skipsins til árása í Sýrlandi. NATO segir að fylgst hafi verið með ferðum rússnesku skipanna á „hófstilltan og skipulegan hátt“.

BBC segir að ekki hafi tekist að fá frásögn rússneska ráðuneytisins staðfesta annars staðar. Hollenski herinn segist ekki ætla að skýra neitt frá ferðum kafbáta sinna.

Þá er óljóst hvar atvikið var. Ein ábending barst um að Admiral Kuznetsov væri um 100 km fyrir norðvestan höfnina Latakia í Sýrlandi.

Igor Konashenkov, talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, sagði að tvö fylgdarskip flugmóðurskipsins,  Severomorsk og Kulakov, hefðu „auðveldlega fundið kafbátinn 20 km frá flugmóðurskipinu með því að nota hlustunartæki skipanna og kafbátaleitar þyrlur“.

Þótt kafbáturinn hefði reynt að komast hjá því að finnast hefðu skipin fylgst með honum í meira en klukkustund og neytt hann „til að yfirgefa svæðið umhverfis flugmóðurskipið“ en sigling kafbátsins hefði bæði verið „klaufaleg og hættuleg“.

Þótt hollenski herinn léti ekkert frá sér fara sagði Jeanine Hennis-Plasschaert varnarmálaráðherra að ekki væri gáfulegt „treysta á málflutning Rússa“.

Jaime Karreman, flotasérfræðingur í Hollandi, sagði að væri frásögnin af atvikinu sönn væri um einstakt atvik að ræða. „Það er all svakalegt ef unnt er að finna kafbát sem sendur er í leyniför,“ sagði hann við hollenska sjónvarpið.

Heimild: BBC

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …