Home / Fréttir / Rússar segja stækkun flugvallar í Eistlandi grímulausa ögrun

Rússar segja stækkun flugvallar í Eistlandi grímulausa ögrun

F-16 orrustuþotur á Amari-flugvelli í Eistlandi.
F-16 orrustuþotur á Amari-flugvelli í Eistlandi.

Áform eru um að stækka Amari-flugvöllinn  í Eistlandi: Þaðan eru sendar vélar undir merkjum NATO í veg fyrir rússneskar hervélar á flugi við lofthelgi Eistlands og annarra Eystrasaltsríkja, Rússneska utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu miðvikudaginn 21. október þar sem stækkun flugvallarins er lýst sem ögrun í garð Rússa.

Í september sendu Bandaríkjamenn í fyrsta sinn F-22, torséðar orrustuþotur, til æfinga í Evrópu. Yfirmaður flughers Eistlands segir að vélar af þeirri gerð verði ekki með bækistöð í Eistlandi. Þær yrðu þá of nálægt rússnesku landamærunum til að tryggja mætti öryggi þeirra á viðunandi hátt.

Í mótmælum rússneska utanríkisráðuneytisins við stækkun Amari-flugvallar sagði meðal annars:

„Í ljósi stöðugra vangaveltna um nauðsyn þess að fjölga herstöðvum [NATO]-ríkja, einkum Bandaríkjanna, á „austurvæng“ bandalagsins teljum við að boðaður undirbúningur [undir stækkun flugvallarins] sé grímulaus ögrun með það að markmiði að grafa undan stöðugleika á svæðum sem hafa hefðbundið búið við stöðugt ástand með vísan til hernaðarlegs öryggis í Evrópu.“

Yfirmaður flughers Eistlands segir að áform á vegum NATO um að stækka Amari-flugvöll snúist um að bæta aðstöðuna fyrir borgaralegt flug.

NATO hefur markvisst styrkt stöðu sína í austurhluta Evrópu síðan Rússar innlimuðu Krímskaga í mars 2014 og hertu á yfirgangi gagnvart Úkraínu. Rússar hafa hvað eftir annað sagt að aukin umsvif herja NATO-ríkja  kynnu að auka á spennu og grafa undan svæðisbundnu og hnattrænu öryggi.

Skoða einnig

Fyrrverandi NATO hershöfðingi kjörinn forseti Tékklands

Petr Pavel (61 árs) fyrrv. hershöfðingi, var laugardaginn 28. janúar kjörinn forseti Tékklands með 57,6% …