
Áform eru um að stækka Amari-flugvöllinn í Eistlandi: Þaðan eru sendar vélar undir merkjum NATO í veg fyrir rússneskar hervélar á flugi við lofthelgi Eistlands og annarra Eystrasaltsríkja, Rússneska utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu miðvikudaginn 21. október þar sem stækkun flugvallarins er lýst sem ögrun í garð Rússa.
Í september sendu Bandaríkjamenn í fyrsta sinn F-22, torséðar orrustuþotur, til æfinga í Evrópu. Yfirmaður flughers Eistlands segir að vélar af þeirri gerð verði ekki með bækistöð í Eistlandi. Þær yrðu þá of nálægt rússnesku landamærunum til að tryggja mætti öryggi þeirra á viðunandi hátt.
Í mótmælum rússneska utanríkisráðuneytisins við stækkun Amari-flugvallar sagði meðal annars:
„Í ljósi stöðugra vangaveltna um nauðsyn þess að fjölga herstöðvum [NATO]-ríkja, einkum Bandaríkjanna, á „austurvæng“ bandalagsins teljum við að boðaður undirbúningur [undir stækkun flugvallarins] sé grímulaus ögrun með það að markmiði að grafa undan stöðugleika á svæðum sem hafa hefðbundið búið við stöðugt ástand með vísan til hernaðarlegs öryggis í Evrópu.“
Yfirmaður flughers Eistlands segir að áform á vegum NATO um að stækka Amari-flugvöll snúist um að bæta aðstöðuna fyrir borgaralegt flug.
NATO hefur markvisst styrkt stöðu sína í austurhluta Evrópu síðan Rússar innlimuðu Krímskaga í mars 2014 og hertu á yfirgangi gagnvart Úkraínu. Rússar hafa hvað eftir annað sagt að aukin umsvif herja NATO-ríkja kynnu að auka á spennu og grafa undan svæðisbundnu og hnattrænu öryggi.