
Rússneska utanríkisráðuneytið tilkynnti fimmtudaginn 10. mars að „óvinveitt aðildarríki ESB og NATO“ væru að eyðileggja Evrópuráðið: „Rússland ætlar ekki að láta bjóða sér sameiginlegar aðgerðir Vestursins sem grafa undan“ ráðinu og nú sé „atburðarásin orðin á þann veg að ekki verður við snúið“.
Skilaboðin frá Moskvu eru að í vaxandi mæli sé Evrópuráðið nú undir forræði Bandaríkjamanna og „fylgiþjóða“ þeirra. Rússar taki ekki þátt í að NATO- og undirgefin ESB-ríki breyti elstu stofnun Evrópu í enn einn vettvanginn þar sem alið sé á boðskapnum um vestræna yfirburði og sjálfsdýrkun,
„Leyfum þeim að njóta eigin félagsskapar án Rússa,“ segir utanríkisráðuneytið.
Föstudaginn 25. febrúar ákvað Evrópuráðið að hlé yrði á þátttöku Rússa í störfum ráðsins. Rússar gengu í Evrópuráðið 28. febrúar 1996 en áður höfðu rússneskir þingmenn átt sérstakan rétt til setu á Evrópuráðsþinginu. Litið var á aðild Rússa að ráðinu sem leið til að auðvelda lýðræðislegum stjórnarháttum að festa rætur í landi þeirra.
Þriðjudaginn 8. mars gáfu forystumenn ráðsins út harðorða yfirlýsingu gegn stríðinu í Úkraínu:
„Við fordæmum eins harkalega og verða má tilefnislausa árás Rússneska sambandsríkisins á Úkraínu, gerræðislega hernaðarárás eins aðildarríkis Evrópuráðsins á annað aðildarríki. Við áréttum óbifanlegan stuðning okkar við sjálfstæði, fullveldi og landsyfirráðarétt Úkraínumanna innan eigin landamæra sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar.“
Formaður ráðherraráðs Evrópuráðsins, Ítalinn Luigi Di Maio utanríkisráðherra, forseti Evrópuráðsins, Tiny Kox, og framkvæmdastjóri ráðsins, Marija Pejčinović Burić, skrifuðu undur yfirlýsinguna.
Þegar ákveðið hafði verið að hlé yrði gert á þátttöku Rússa í ráðinu sagði Dmitríj Medvedev, fyrrverandi Rússlandsforseti og núverandi varaforseti rússneska öryggisráðsins, að við þetta „skapaðist gott tækifæri til að taka upp dauðarefsingu að nýju fyrir alvarlegustu glæpi“.
Evrópuráðið var stofnað 1949 til að standa vörð um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið í Evrópu. Eftir úrsögn Rússa eru aðildarríkin 46.
Rússar voru sviptir atkvæðisrétti innan Evrópuráðsins árið 2014 eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga. Thorbjørn Jagland, þáv. framkvæmdastjóri ráðsins, fól árið 2018 sérstakri nefnd að leita sátta við Rússa og í maí 2019 fengu þeir atkvæðisrétt að nýju í ráðinu.