Home / Fréttir / Rússar segja „of snemmt“ fyrir Pútin að hitta Biden – styrkja umsátursherinn

Rússar segja „of snemmt“ fyrir Pútin að hitta Biden – styrkja umsátursherinn

Rússneskir skriðdrekar í Hvíta-Rússlandi, skammt frá lanadmærum Úkraínu.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti taldi sig sunnudaginn 20. febrúar hafa lagt drög að fundi Joes Bidens Bandaríkjaforseta og Vladimirs Pútins Rússlandsforseta með símtölum við þá og Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta. Biden samþykkti fundinn með fyrirvara um að Rússar réðust ekki inn í Úkraínu. Frá Kreml bárust boð mánudaginn 21. febrúar um að „of snemmt“ væri að ræða um fund Bidens og Pútins.

Strax sunnudaginn 20. febrúar vildu ýmsir bandarískir embættismenn ekki gera of mikið úr hugsanlegum leiðtogafundi. Minntu þeir á að Pútin hefði oftar en einu sinni samþykkt að sækja fund á sama tíma og hann legði á ráðin um stríðsaðgerðir sem síðar kæmu til framkvæmda.

Á sama tíma og þetta gerist á alþjóðlegum stjórnmálavettvangi halda Rússar áfram að flytja herafla að landamærum Úkraínu. Nýjar gervihnattarmyndir sýna lestir rússneskra hermanna og skriðdreka sem hafa falið sig í borgum og bæjum og undir trjám nærri landamærunum auk þess sem unnið er að því að reisa vígvallarsjúkraskýli.

Bandarískir heimildarmenn segja að hefjist átök beiti rússar „ofurafli stórskotaliðs“ á fyrsta stigi til að drepa „tugi þúsunda manna“.

„Það er ótímabært að ræða um einhverjar sérstakar áætlanir um skipulag hvers kyns leiðtogafunda,“ sagði Dmitríj Peskov, talsmaður Pútins, mánudaginn 21. febrúar. Ekkert hefði verið fastmælum bundið um leiðtogafund.

Utanríkisráðherrarnir Antony Blinken og Sergeij Lavror hittast fimmtudaginn 24. febrúar og er talið að þeir ræði hugsanlegan fund Bidens og Pútins.

Biden sagði um helgina að Pútin hefði þá þegar gefið fyrirmæli um árás. Spurning væri hvar og hvenær höggið yrði greitt. Bandarískir embættismenn sem sögðust hafa séð hluta af árásaráætlunum Rússa telja að gerð verði allsherjar sprengjuárás á Úkraínu.

Rússar hafa einnig tekið saman „aftökulista“, það er nöfn manna sem verða tekinir af lífi eða handteknir þegar rússneskir hermenn sækja inn í Úkraínu. Bandarískir embættismenn segja að á listanum séu nöfn stjórnmálamanna, aðgerðarsinnar gegn spillingu, andófsmenn frá Hvíta-Rússlandi og Rússlandi og aðgerðarsinnar í þágu hins segin fólks (e. LGBT activists).

Volodymyr Zelenskíj forseti hvatti til þess í ræðu á öryggisráðstefnu í München laugardaginn 19. febrúar að gripið yrði strax til refsiaðgerða gegn Rússum í ljósi frétta frá Bandaríkjunum og Bretlandi um hve langt Rússar hefðu gengið til að brjóta á fullveldi Úkraínu.

Bandaríkir embættismenn svöruðu gagnrýni Úkraínuforseta sunnudaginn 20. febrúar og sögðu að ótímabært væri að grípa til þessara aðgerða nú, það yrði aðeins til að veikja eða eyðileggja fælingarmátt þeirra.

Vladimir Pútin efnir til sérstaks fundar í öryggisráði Rússlands mánudaginn 21. febrúar. Er boðað forsetinn og fleiri flytji þar ræður. Ráðinu er ætlað taka ákvarðanir um þjóðaröryggismál.

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …