Home / Fréttir / Rússar segja kynningu á nýju kjarnorkuvopni hafa verið mistök

Rússar segja kynningu á nýju kjarnorkuvopni hafa verið mistök

 

Skjalið um Status 6 sem sýnt var í rússnesku sjónvarpsfréttunum.
Skjalið um Status 6 sem sýnt var í rússnesku sjónvarpsfréttunum.

Í fyrra sagði rússneska ríkissjónvarpið áhorfendum sínum að Rússar væru eina þjóðin sem gæti breytt Bandaríkjunum í „geislavirka ösku“. Nú í vikunni birtu tvær sjónvarpsstöðvar hlynntar Kremlverjum fréttir um hvernig rússneski herinn mundi ná þessu markmiði.

Að kvöldi þriðjudags 10. nóvember mátti sjá nokkurra sekúndna frétt þar sem birtar voru teikningar og nákvæmar upplýsingar um væntanlegan mannlausan smákafbát sem á að geta flutt kjarnorkusprengju og senda má frá kafbáti, er smákafbátuirnn kallaður Status-6. Rússar hófu smíði kafbáta af þessari gerð fyrir þremur árum. Í fréttinni sagði að mannlausa kafbátinn mætti senda 5.400 sjómílur (10.000 km) á 1.000 metra dýpi.

Tony Wesolowsky, fréttamaður Radio Free Europe/Radio Liberty (RFEL), segir að með myndum af mannlausu kafbátunum, sem enn eru á teikniborðinu og verða í fyrsta lagi smíðaðir eftir áratug, hafi verið ógnvekjandi texti um að nota mætti gjöreyðingarvopnið til árása á mikilvæg atvinnusvæði á ströndum landa. Í fréttinni sagði að árásirnar mundu skapa stór geislavirk svæði og hindra um langan tíma alla starfsemi á þeim, hernaðarlega sem og aðra.

Frá Kreml bárust í skyndi boð um að fréttaflutningurinn hefði verið mistök. Dmitríj Peskov, talsmaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, sagði að sjónvarpsstöðvarnar hefðu fyrir misskilning birt „trúnaðarmál“ í fréttum sínum. Yfirvöld mundu sjá til þess að þetta endurtæki sig ekki.

Tony Wesolowsky segir ekki alla sannfærða um að þetta hafi verið mistök. Fréttirnar hafi verið í  anda herskás málflutnings Kremlverja. Myndin af skjalinu í fréttinni var tekin á fundi sem Pútín hélt með rússneskum herforingjum í Sotsjí við Svartahaf þriðjudaginn 10. nóvember.

Vladimír Pútín hefur ekki sparað að minna umheiminn á kjarnorkustyrk Rússa. Hann gerði það til dæmis í ágúst 2014 þegar spenna óx í Úkraínu. Þá sagði hann að Rússar réðu yfir kjarnorkuvopnum og bætti við: „Það er best að ergja okkur ekki.“

Bandaríkjastjórn hefur lagt eyrun við þessum hálfkveðnu vísum. Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði laugardaginn 7. nóvember að kjarnorkuvopnaskak ráðamanna í Moskvu vekti spurningar um hollustu þeirra við samkomulag um stöðugleika milli kjarnorkuveldanna, hvaða reglur giltu í Rússlandi um beitingu kjarnorkuvopna og hvort Rússar gættu nægilegrar varúðar vegna þeirra.

Á fundinum í Sotsjí endurtók Pútín hið sama og hann hefur margoft sagt að Rússar væru að framleiða vopn sem kæmust í gegnum eldflaugavarnaskjöld. Hann hefur löngum haft horn í síðu eldflaugavarna í Evrópu og sakað Bandaríkjamenn að ógna með því öryggi Rússa sem ráðamenn í Washington segja fráleitt.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …