Home / Fréttir / Rússar segja Finnum að aukin NATO-umsvif kalli á viðbrögð

Rússar segja Finnum að aukin NATO-umsvif kalli á viðbrögð

Timo Soini og Sergei Lavrov.
Timo Soini og Sergei Lavrov.

 

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði á blaðamannafundi með Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands,  í Moskvu mánudaginn 6. júní að Rússar mundu grípa til sinna ráða vegna aukinna umsvifa NATO á Eystrasaltssvæðinu.

Sama dag og Lavrov sagði þetta hófst árleg flotaæfing NATO, BALTOPS 16, að þessu sinni í fyrsta sinn í Finnlandi.

Sergei Lavrov sagði: „Við förum ekki leynt með neikvæða afstöðu okkar í garð NATO fyrir að færa hernaðarmannvirki sín nær landamærum okkar og með því að draga önnur ríki inn í hernaðarumsvif sín. Af þessu leiðir að Rússar munu árétta fulllveldisrétt sinn til að verjast á þann hátt sem hæfir ógninni sem að þeim steðjar. Ég er þess fullviss að finnskir vinir okkar og nágrannar skilja þetta.“

Timo Soini sagði blaðamönnum að með heræfingunni sem hófst 6. júní vildu Finnar efla hernðargetu sína en henni væri „ekki beint gegn neinum“.

Reuters-fréttastofan hafði eftir Soini að Finnar litu „öryggisáskoranir sínar“ alvarlegum augum, þeir ættu nána samvinnu við NATO og vildu dýpka samvinnu sína við Svía. Hið eina sem vekti fyrir Finnum væri að huga að eigin öryggi og þeir gætu rætt þessi mál opið við Rússa.

Franz Klintsevitsj, varaformaður varnarmálanefndar efri deildar rússneska þingsins, gekk lengra en Sergei Lavrov þegar hann sagði við Interfax-fréttastofuna að NATO byggi sig undir „alhliða sókn“ gegn Rússum.

Af hálfu NATO er bent á að í fyrra hafi Rússar efnt til yfir 800 stríðsleikja á þessum slóðum og flestir þeirra hafi hafist án nokkurrar viðvörunar þrátt fyrir kröfur alþjóðasamninga um annað.

Nú standa yfir þrjár heræfingar undir merkjum NATO: Anaconda-16, BALTOPS 16 og Iron Wolf 2016. Öllum er ætlað að sýna að bandalagið er tilbúið til varnar aðildarríkjum sínum í austri gegn Rússum.

Anaconda-16 æfingin er í Póllandi og er hin umfangsmesta sinnar tegundar frá lokum kalda stríðsins. Þetta er 10 daga æfing með þátttöku 14.000 bandarískra hermanna, 12.000 pólskra hermanna, allt að 1.000 breskra hermanna af allt að 31.000 hermönnum frá 24 löndum.

Þriðjudaginn 7. júní æfðu 1.130 fallhlífarhermenn stökk til jarðar í Torun í norðurhluta Póllands. Þá er smíðum neyðarbrú yfir ána Wistula og 35 þyrlur eru látnar gera næturárás. Í fyrsta sinn frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar verða þýskir skriðdrekar sendir inn í Pólland frá Þýskalandi.

BALTOPS-æfingin (Baltic Operations) fer fram árlega. Hún hófst eins og áður sagði mánudaginn 6. júní. Um 4.500 hermenn frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum taka þátt í henni, þar á meðal frá Finnlandi og Svíþjóð sem standa utan NATO.

Um 5.000 hermenn taka þátt í Iron Wolf 2016 æfingunni sem fer að mestu fram í Litháen og Lettlandi.

Heimild: EUobserver og Reuters

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …