Home / Fréttir / Rússar segja farsíma hafa kallað á mannskæðu árásina

Rússar segja farsíma hafa kallað á mannskæðu árásina

Svona er umhorfs þar sem áður stóð herskáli Rússa í Makiivka.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði miðvikudaginn 4. janúar að ólögmæt notkun hermanna á farsímum hefði átt sök á mannskæðri flugskeytaárás Úkraínuhers á herskála í bænum Makiivka í austurhluta Úkraínu á nýársnótt. Ráðuneytið segir nú að 89 hermenn hafi fallið, áður hafði það sagt þá 63. Úkraínuher segir að um 400 rússneskir hermenn hafi týnt lífi í árásinni og um 300 særst.

Að rússnesk yfirvöld staðfesti mannfall í eigin liði á þennan hátt og segi að embættismenn ábyrgir fyrir mistökum verði látnir svara til saka er jafnvel óþekkt að mati fréttaskýrenda BBC. Þeir telja einnig að með því að segja herforingja verða kallaða fyrir rétt sé markmið varnarmálaráðuneytisins að beina athygli frá ábyrgð Vladimirs Pútins Rússlandsforseta. Hann hefur ekkert sagt vegna árásarinnar í Makiivka.

Allt er þetta til marks um reiðibylgjuna sem fer um Rússland vegna mannfallsins. Þá hefur yfirvöldum í Moskvu ekki tekist að leyna þjóðina því að her hennar hefur farið halloka í Úkraínu.

Undrun vekur að agi í rússneska hernum sé ekki meiri en svo að hermenn hafi aðgang að farsímum við vígvöllinn. Engu sé líkara en yfirmenn hersins geri sér ekki grein fyrir þeirri hættu sem notkun síma hefur og hve mjög hún auðveldar að finna þá sem skotmark sem gera það.

Semjon Pegov, stríðsfréttaritari sem Pútin hefur heiðrað, sagði á samfélagsmiðlinum Telegram að það virtist „augljóst tilraun til að skella skuldinni á aðra“ að nota farsíma sem skýringu á óförunum. Úkraínumenn hefðu getað fundið herskálann í Makiivka eftir öðrum leiðum. Hann sagði að tölur fallinna hermanna mundu enn hækka: „Það sem nú hefur verið sagt snýr líklega að þeim sem þekkja mátti strax. Listinn yfir týnda er því miður umtalsvert lengri.“

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti minnist sárasjaldan á einstakar aðgerðir Úkraínuhers og hann nefndi ekki sprengjuna í Makiivka í daglegu ávarpi sínu þriðjudaginn 3. janúar. Hann bjó hins vegar hlustendur sína undir að Rússar gerðu enn eina gagnsóknina í von um að rétta hlut sinn.

„Í okkar huga er enginn vafi á því að þeir sem nú ráða í Rússlandi munu nota allt sem þeir enn eiga og nýta alla sem þeir geta í tilraun til að breyta gangi stríðsins og að minnsta kosti tefja fyrir ósigri sínum,“ sagði Zelenskíi í ávarpi sínu.

„Við verðum að hindra þessi áform Rússa. Við búum okkur undir það. Hryðjuverkamennirnir verða að tapa. Þeim verður að mistakast allt sem snýr að nýrri sókn þeirra,“ sagði forsetinn einnig.

Efri gervihnattarmyndin en er tekin þegar verkmenntaskólinn sem breytt var í herskála og vopnabúr stóð enn – neðri myndin sýnir rústirnar eftir árásina á nýársnótt.

 

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …