Home / Fréttir / Rússar segja drónaárás gerða 600 km inni í landi sínu

Rússar segja drónaárás gerða 600 km inni í landi sínu

Langdræg rúissnesk sprengjuvél á Engels-flugvelli.

Að kvöldi jóladags að íslenskum tíma, kl. 01.35 að Moskvutíma aðfaranótt annars jóladags segjast Rússar hafa skotið niður dróna frá Úkraínu yfir Engels-flugvelli í Saratov héraði í um 600 km austur af Úkraínu. Leifar úr sundurskotna drónanum hafi orðið þremur tæknimönnum í flugherstöðinni að bana.

Rússneska varnarmálaráðuneytið birti frétt um árásina en 5. desember var ráðist á sama herflugvöll og annan samtímis. Þykir með nokkrum ólíkindum að Úkraínuher ráði yfir svo langdrægum drónum sem geti komist óhultir í gegnum loftvarnakerfi Rússlands. Telja fréttaskýrendur að þessi atvik séu til þess fallin að draga úr trausti Rússa í garð eigin stjórnvalda.

Bærinn Saratov er í um 730 km suðaustur af Moskvu. Á Engels-flugvelli er bækistöð langdrægra sprengjuflugvéla Rússa, Tu-95 og Tu-160, sem eru ásamt kafbátum og langdrægum landeldflaugum hluti af þríeinum kjarnorkuherafla þeirra.

Sprengjuvélar sem sjást í ratsjám hér á landi hefja för sína að jafnaði á Engels-flugvelli. Fréttir bárust fyrir nokkrum vikum um að sprengjuvélar hefðu verið fluttar frá vellinum og sendar til annarra flugvalla sem gagnast þeim, einkum í norðri.

Tu-95 og Tu-160 vélar hafa verið notaðar til sprengjurása á skotmörk í Úkraínu. Í um þrjá mánuði hafa Rússar lagt áherslu á að eyðileggja borgaraleg grunnvirki daglegs lífs í Úkraínu, raf- og vatnsveitur, til að gera líf borgara landsins eins óbærilegt og verða má yfir vetrarmánuðina.

Rætt var við Juríj Ihnat, talsmann flughers Úkraínu, í sjónvarpi mánudaginn 26. desember hann viðurkenndi ekki beint að Úkraínumenn hefðu átt aðild að atvikinu á Engels-flugvelli en sagði:

„Þetta eru afleiðingar árásar Rússa. Hafi Rússar haldið að stríðið mundi ekki hafa áhrif á þá langt á bak við víglínuna, var það algjör misskilningur.“

Talsmenn Úkraínustjórnar hafa aldrei viðurkennt að drónar hafi verið sendir frá Úkraínu inn í Rússland.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …