
Rússar saka Svía um að stunda áróður eftir að háttsettir sænskir embættismenn á sviði varnar- og öryggismála lýstu áhyggjum af umsvifum rússneska hersins.
„Hættið að nota sænska fjölmiðla til að skapa spennu og hræðslu meðal almennings með tali um ógn frá Rússum,“ sagði Maria Zacharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, á blaðamannafundi fimmtudaginn 7. júlí.
„Við verðum því miður hvað eftir annað vitni að því hvernig Svíar forðast markvisst að hafa samband við Rússa og grípa þess í stað til áróðurs,· sagði hún.
Ummæli hennar féllu aðeins fáeinum dögum eftir að nokkrir háttsettir sænskir embættismenn sökuðu rússnesk stjórnvöld um að reyna að reka fleyg á milli Evrópuríkja í tilraun til að vega að brothættu ESB.
Fyrr í vikunni sagði Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, að ráðamenn í Moskvu notuðu „ýmsar aðferðir til þess að reyna að veikja Evrópu“.
Hér á vardberg.is var á dögunum sagt frá orðum Gunnars Karlsonar, yfirmanns MUST, leyniþjónustu sænska hersins, um að Rússar hefðu hag af og vildu sjá klofning innan ESB og NATO.
Micael Bydén, yfirmaður sænska heraflans, ræddi einnig um tengsl Svía og Rússa í vikunni. Hann lýstu áhyggjum yfir hve oft hefði munað litlu á undanförnum árum að árekstur yrði milli rússneskra og sænskra herflugvéla.
„Mistök kunna að hafa slys í för með sér og það kann að vera notað í röngum tilgangi,“ sagði hann og hvatti til þess að símasamband yrði stofnað milli embættismanna í löndunum tveimur.
Zacharova svaraði hershöfðingjanum fullum hálsi fimmtudaginn 7. júlí og sagði að Bydén hefði átt að lýsa áhyggjum sínum milliliðalaust við Rússa í stað þess að nota sænska fjölmiðla til að kynna þær.
„Hvers vegna tekur hann ekki bara upp símann og hringir í starfsbræður sína í Rússlandi og ber málið upp við þá?“ spurði hún.
Fyrr á þessu ári sagði Säpo, sænska öryggislögreglan, að Svíum stafaði mest öryggisógn af Rússum.
.