Home / Fréttir / Rússar saka Norðmenn um ögranir á norðurslóðum

Rússar saka Norðmenn um ögranir á norðurslóðum

Barents Observer hefur notað þessa gervihnattamynd til að sýna annars vegar norsku flotahöfnina og hafnir Rússa á Kólaskaga.
Barents Observer hefur notað þessa gervihnattamynd til að sýna annars vegar norsku flotahöfnina og hafnir Rússa á Kólaskaga.

Rússnesk yfirvöld hafa í hótunum við Norðmenn vegna fjölgunar ferða kafbáta frá NATO-ríkjum sem sækja Noreg heim eða nýta sér aðstöðu við strendur landins. Thomas Nilsen, ritstjóri vefsíðunnar Barents Obsverer vekur föstudaginn 8. febrúar athygli á nýjum tóni í afstöðu rússneska utanríkisráðuneytisins.

Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði á vikulegum fundi með blaðamönnum fimmtudaginn 7. febrúar:

„Í andstöðu við sögulegar hefðir í nágrannasamskiptum og samvinnu á norðurslóðum halda stjórnvöld í Osló áfram að magna spennu og auka hættu á hernaðaraðgerðum. Þessu verður ekki látið ósvarað.“

Per-Thomas Bøe, flotaforingi í norska varnarmálaráðuneytinu, staðfesti við Barents Observer í fyrra að kafbátar frá NATO-ríkjunum fengju nú oftar en áður á undanförnum árum leyfi til að sigla innan norska skerjagarðsins, einkum undan Norður-Noregi, „þrír til fjórir í mánuði,“ sagði hann.

Vegna meiri flotaumsvifa á norðurslóðum kjósa stjórnendur bandarískra og breskra kafbáta að sigla ofansjávar við Norður-Noreg til að skipta um áhafnir eða fá vistir. Það sparar þeim ferð alla leið til flotastöðvarinnar Håkonsværn skammt frá Bergen eða til kafbátahafna í Bretlandi.

Norðmenn lokuðu árið 2009 Olavsværn, flotastöð í nágrenni Tromsø.

Síðan hefur ekki verið nein örugg höfn fyrir kafbáta bandamanna Norðmanna í norðurhluta Noregs. Til að bæta upp þennan skort á hafnaraðstöðu hafa norsk yfirvöld nú leyft kafbátum að leita til  borgarlegu hafnarinnar Grøtsund / Tønsnes en það tekur um hálfa klukkustund að sigla þangað frá  Tromsø. Frá höfninni er 375 km loftlína austur að rússnesku landamærunum á Kólaskaga.

Á fyrrnefndum blaðamannafundi sagði Zakharova:

„Þeim fjölgar sífellt dæmunum um virka þátttöku Norðmanna í framkvæmd áætlana NATO um að auka viðveru á vegum bandalagsins á norðurslóðum. Við þessi dæmi bætist árið 2019 að ætlunin er að koma upp mannvirkjum til að þjóna kafbátum á Norður-Atlantshafi. Þar má sérstaklega nefna sérgreinda höfn til að taka á móti kjarnorkukafbátum ekki langt frá Tromsø í norðurhluta Noregs.“

Til samanburðar bendir Thomas Nilsen á að 2/3 rússneska herflotans, þar með um 30 kjarnorkuknúnir kafbátar, eru í höfnum við Barents haf.

Zapadnaja Litsa, heimahöfn fjórðu kynslóðar alhliða árásarkafbátanna af Jasen-gerð er aðeins 40 km fyrir austan norsku landamærin. Í innan við 110 km fjarlægð eru flotahafninar Vidjajevo, Gadzhijevo, Poljarníj og Severomorsk. Þar eru langdrægir rússneskir kjarnorkukafbátar og herskip Norðurflota Rússa.

Maria Zakharova lét ekki við það sitja að telja Norðmenn ögra Rússum með samvinnu við flotastjórnir annarra NATO-ríkja heldur sögðu rússneskir fjölmiðlar einnig frá því í vikunni að NATO hefði „sprengt eitruð tundurskeyti skammt frá lögsögu Rússa“.

Thomas Nilsen segir orðin „skammt frá“ algjörlega úr lausu lofti gripin.

Norski flotinn sprengdi vissulega nokkur tundurskeyti af freigátunni Helge Ingstad sem marar í kafi skammt frá Bergen. Skeytin voru sprengd í Hjeltefjørden fyrir utan Bergen. Þaðan er loftlína um 1.600 km að rússnesku landamærunum á Kólaskaga.

Í Barents Observer er rætt við Njord Wegge, sérfræðing í öryggismálum norðurslóða við Norsku utanríkismálastofnunina (NUPI).

Hann útskýrir hvers vegna Norðmenn þurfa nýja flotaaðstöðu í norðri:

„Þegar Olavsværn var lokað var varla unnt að sigla norskum eða öðrum kafbátum til birgðahafnar á nokkrum stað í Noregi fyrir norðan Bergen. Það var óviðunandi aðstaða þegar litið er til legu og langrar strandlengju Noregs.“

Wegge bendir á örar breytingar á öryggismálum á norðurslóðum:

„Vegna nýrra vígbúnaðaráætlana í Rússlandi og hraðvaxandi hernaðarumsvifa í norðri ætti engum að koma á óvart að Norðmenn og bandamenn þeirra telji aftur þörf á að bæta hafnaraðstöðu fyrir kafbáta og herskip í Norður-Noregi.“

Njord Wegge segir að höfnin í Grøtsund / Tønsnes sé „eðlilegt svar við auknum kröfum um viðveru í norðri“.

Hann segir að fjarlægð hafnarinnar frá rússnesku landamærunum sé svo mikil að engin leið sé að túlka hana sem „ögrun“.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …