
Maria Zakharova, yfirmaður upplýsingadeildar rússneska utanríkisráðuneytisins, sakar finnsku öryggis- og leyniþjónustuna Supo um að þjást af Rússafóbíu eftir að hún birti skýrslu þar sem bent er á Rússar kunni að stunda landakaup í Finnlandi í hernaðarlegum tilgangi.
Frá því var greint fyrir nokkrum dögum að í skýrslu frá Supo kæmi fram að hugsanlega gætu Rússar notað land sem þeir hefðu keypt í Finnlandi sem samastað fyrir herafla sinn. Skýrslan var lögð fyrir stjórnsýslunefnd finnska þingsins í september.
„Satt að segja skil ég ekki hvernig unnt er að búa við stöðugan ótta. Þetta líkist engu öðru en vænisýki,“ sagði Maria Zakharova fimmtudaginn 4. nóvember. Hún lýsti efni skýrslunnar sem hreinni Rússafælni.
„Þeir skilja ekki að stöðugur hræðsluáróður yfir eigin fólki kallar að lokum fram vandamál. Á vissu stigi breytist fóbía í maníu,“ sagði upplýsingafulltrúinn.
Supo hefur beint athygli að þeirri staðreynd að nota megi land og fasteignir sem keyptar eru í Finnlandi undir hermenn frá óvinalandi á hættustundu eða á samgönguæðar kunni að verða skorið séu þær í eigu útlendinga.
Í frétt finnska ríkisútvarpsins YLE segir að varnarmálaráðuneytið hafi grandskoðað bakgrunn fasteignaviðskipta annarra en Finna og hugað að leiðum til afskipta af þeim.
Formaður varnarmálanefndar finnska þingsins segir Rússa ekki hafa verið nefnda til sögunnar í skýrslu Supo. Þar er hins vegar minnst á blendingsstríð „hybrid warfare“ Rússa og hvernig aðferðum í því var beitt í aðdraganda innlimunar Krímskaga.