
Rússar hafa lýst áhyggjum vegna nýlegra tilrauna Bandaríkjamannan með kjarnorkusprengjur. Telja Rússar að þær bendi til þess að þeir hafi í huga að setja B61-12 kjarnorkusprengjur um borð í skammdrægar sprengjuvélar í herstöðvum á vegum NATO í Evrópu.
Í frétt á sputniknews.com mánudaginn 13. júlí er minnt á að hinn 1. júlí hafi flugher Bandaríkjanna efnt til æfinga í samvinnu við kjarnorkuöryggis-stofnun Bandaríkjanna með því að kasta óvirkum B61-12 sprengjum úr lofti í Nevada-ríki.
Anatolíj Antonov, vara-varnarmálaráðherra Rússlands, sagði mánudaginn 13. júlí að þessi æfing Bandaríkjamanna væri „ögrun“. Hann sagði við blaðamenn:
„Aðgerðir af bandarískri hálfu eru greinileg ögrun við núverandi aðstæður og í andstöðu við yfirlýsta stefnu ráðamanna í Washington um algjöra upprætingu kjarnorkuvopna.
Þetta snertir sérstaklega tilraunina sem var gerð með því að nota F-15E orrustu-sprengjuvél. Notkun vélanna ýtir undir þá skoðun að tilraunin hafi verið gerð til að kanna kosti þess að nota B61-12 kjarnorkusprengju í NATO orrustu-sprengjuvélum í Evrópu.
Bandaríkjamenn nota sögusagnir um hina ímynduðu „rússnesku ógn“ til að auka hernaðarmátt NATO við landamæri Rússlands og til að réttlæta endurbætur á kjarnorkuherafla sínum.
Þær [tilraunirnar] staðfesta ásetning Bandaríkjamanna um að halda úti kjarnorkuvopnum sem ná til Rússlands í Evrópu og vilja til að þau nýtist sem best í átökum. Við teljum þetta til marks um ítrekað viljaleysi þeirra til að endurskoða þátttöku NATO-ríkja sem ekki eiga kjarnorkuvopn í sameiginlegum kjarnorku-verkefnum sem brjóta afdráttarlaust gegn skuldbindingum NPT-samkomulagsins [samkomulagsins um bann við dreifingu kjarnorkuvopna].
Með því að nota yfirvarpið um hina alræmdu og upplognu ógn af Rússa hálfu efla Bandaríkjamenn ekki aðeins herstyrk sinn og návist NATO við vestur landamæri Rússlands heldur einnig til að endurnýja kjarnorkuherafla sinn.“