Home / Fréttir / Rússar sagðir hafa æft skyndiárás á Svalbarða um miðjan september

Rússar sagðir hafa æft skyndiárás á Svalbarða um miðjan september

Valdimír Pútín fylgist með Zapad 2017 heræfingunni.
Valdimír Pútín fylgist með Zapad 2017 heræfingunni.

Á vefsíðunni Aldrimer.no segir miðvikudaginn 18. október að Norðmenn og NATO hafi átt sér einskis ills von þegar Rússar æfðu skyndiárás á Svalbarða sem hluta af heræfingunni miklu Zapad 2017 um miðjan september. Vefsíðan sérhæfir sig í fréttum um öryggis- og varnarmálum og segir höfundur greinarinnar, Kjetil Stormark, að hann styðjist við frásagnir sex heimildarmanna.

Alvarlegast þykir að njósnastofnun norska hersins skyldi ekki hafa aflað neinna upplýsinga um það sem í vændum var og sýni það að hleranir Norðmanna skili ekki þeim árangri sem vænst er. Þegar á reyndi skorti Norðmenn bæði orrustuvélar, eftirlitsvélar og skip til að bregðast við skyndiárás Rússa.

Á vefsíðunni segir að atvikið hafi leitt til fjölda neyðarfunda fulltrúa norska hersins og NATO þar sem fram hafi komið að um „algjört hrun“ norsks viðbúnaðar væri að ræða.

Í samtali við norska ríkisútvarpið, NRK, segir fulltrúi njósnastofnunar hersins að ekki sé sagt rétt frá á Aldrimer.no. Þegar Stormark sneri sér til yfirstjórnar norska hersins var honum svarað á þann veg að ekki væri unnt að bregðast við erindi hans án þess að brjóta reglur um hernaðarleg ríkisleyndarmál.

Norska varnarmálaráðuneytið segist ekki vita um neina neyðarfundi með fulltrúum NATO. Í Zapad 2017 æfingunni hafi rússneskur liðsauki verið fluttur til Kóla-skagans og í nágrenni Noregs án þess að ögra Noregi á nokkurn hátt.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …