
Takist Rússum ekki að stöðva sókn Úkraínumanna verða flutningaleiðir rússneska hersins brátt innan skotmáls þeirra að mati herfræðinga.
„Það er ekki nauðsynlegt að komast alla leið til Melitopol til að þrengja að Rússum og fækka kostum þeirra. Það er ekki nauðsynlegt að komast alla leið að Azovhafi áður hætta steðjar að birgðaflutningsleiðum Rússa“ segir Jan Kallberg, sérfræðingur hjá hugveitunni Center for European Policy Analysis, við ABC-fréttastofuna í Ástralíu fimmtudaginn 7. september.
Þarna er um að ræða flutningsleiðir Rússa á landi frá Donetsk í austurhluta Úkraínu til Krímskaga.
„Landvinningar Úkraínumanna ógna ekki aðeins flutningaleiðum Rússa heldur hafa þeir einnig gífurleg áhrif á hvar Rússar staðsetja stjórnendur herafla síns. Þá hefur öll röskun á rússneskum birgðaflutningum afleiðingar fyrir íbúa á Krímskaga sem eru um það bil ein og hálf milljón manna,“ segir Kallberg.
Ivan Federov, talsmaður útlagastjórnar íbúa Melitopol, segir að flótti hafi brostið í rússneska hernámsliðið þar. Bærinn sé að fá á sig yfirbragð víglínuátaka þótt barist sé í margra kílómetra fjarlægð frá honum. Hann verði þó brátt innan skotmáls stórskotaliðs Úkraínuhers.
„Varnir óvinarins bresta. Fyrstu rotturnar flýja sökkvandi skip Rússa,“ segir Fedorov á samfélagsmiðlinum Telegram.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur einnig látið orð falla um sókn Úkraínuhers:
„Úkraínskum hermönnum hefur tekist að rjúfa varnarlínur Rússa og sótt fram. Það sýnir hve stuðningur okkar skiptir miklu og viljinn til að styðja Úkraínumenn áfram. Það hefur gert þeim kleift að hefja gagnsóknina. Nú leggja þeir undir sig landsvæði. Úkraínumenn sækja varlega en af öryggi fram í stríðinu við Rússa.“
Leyniþjónusta bandaríska varnarmálaráðuneytisins telur hugsanlegt að Úkraínumönnum takist að brjótast í gegnum allar varnarlínur Rússa fyrir árslok þótt það verði ákaflega erfitt.
„Hefðum við rætt saman um þetta fyrir tveimur vikum hefði ég verið töluvert svartsýnni. Sókn þeirra í gegnum aðra varnarlínuna skiptir verulegu máli,“ segir Trent Maul, greiningarstjóri hjá Defense Intelligence Agency (DIA), leyniþjónustu bandaríska varnarmálaráðuneytisins, við vikuritið The Economist.
Hann viðurkennir að hvorki bandarískir né úkraínskir embættismenn hafi áttað sig til fulls á því hve öflugar varnarlínur Rússar hefðu reist og hve erfitt yrði að brjótast í gegnum þær á brunvörðum farartækjum.
Maul minnir á að enn sé eftir að sigrast á þriðju varnarlínunni. Hershöfðingjar Úkraínu hafi þó bent á að aðeins um 20% af búnaði sínum og kröftum við gerð varnarlínanna hafi Rússar varið til að gera þá þriðju en 80% í hinar tvær.
Maul segir að tvennt ráði mestu um sókn Úkraínuhers á næstunni: magn skotfæra stórskotaliðsins og haustveðráttan.
Í blaðinu Ukraina Pravda segir að Bandaríkjastjórn telji að Úkraínumenn hafi líklega sex til sjö vikur til að láta sókn sína ná hápunkti. Hvor stríðsaðili um sig verði því að nýta sér stöðu sína sem best til að ná hámarksárangri áður en haustrigningar og síðan vetrarkuldar setji strik í reikninginn.
Heimild: ABC Nyheter 7. september