Home / Fréttir / Rússar sækja að neðansjávarstrengjum flotastöð fyrir austan Noreg

Rússar sækja að neðansjávarstrengjum flotastöð fyrir austan Noreg

Rússneska flotastöðin í Olenja er heimahöfn skipa sem beitt er gegn neðansjávarstrengjum,
Rússneska flotastöðin í Olenja er heimahöfn skipa sem beitt er gegn neðansjávarstrengjum,

Í Olenja-flóa við strönd Barentshafs er heimahöfn flota kjarnorkuknúinna njósnakafbáta og herskipa sem sagt er nú af hálfu NATO að láti æ meira að sér kveða við neðansjávar strengi og kapla á Norður-Atlantshafi.

Þannig hefst löng grein sem Thomas Nilsen, ritstjóri vefsíðunnar Independent Barents Observer, birtir á síðunni föstudaginn 12. janúar 2018.

Í greininni lýsir Nilsen starfsemi á vegum rússneskrar djúpsjávar-rannsóknastofnunar sem þekkt er undir skammstöfuninni GUGI. Stofnunin heyrir beint undir rússneska herráðið. Hún hefur aðsetur 100 km fyrir austan norsku landamærin og þaðan eru níu kjarnorkuknúnir kafbátar og nokkur skip oft send til að sinna sérstökum verkefnum. Nilsen segir lítið vitað um tilgang ferða skipanna annað en ráða megi af frásögnum um mun meiri umsvif en áður við neðansjávarstrengi sem eru meginþræðir rafrænna samskipta um heim allan.

Í greininni er stuðst við upplýsingar sem má afla til dæmis með því að skoða gervihnattamyndir sem aðgengilegar eru öllum.

Rússar hafa fjölgað kafbátum og skipum í flota sínum sem notuð eru til sérgreindra verkefna neðansjávar. Það vekur undrun hve lítið er skrifað opinberlega um skipin og heimahöfn þeirra fyrir norðan Múrmansk. Nilsen nefnir nýlega skýrslu eftir breska íhaldsþingmanninn Rishi Sunak þar sem vitnað er nokkra menn innan NATO sem halda því opinberlega fram að skipin „sýni ágengni“ nálægt strengjum sem skipta sköpum fyrir gagnaflutning um heim allan.

Hér á vefsugerc33.sg-host.com hefur verið sagt frá þessum ummælum í nýlegum greinum. Nilsen bendir á að bandaríski flotaforinginn Andrew Lennon, yfirmaður kafbátaflota undir merkjum NATO, hafi ekki beint sagt að Rússar hafi „fiktað“ við strengina. Nilsen segir jafnframt að rússneska sendiráðið í Osló hafi ekki svarað spurningum frá sér vegna ásakana Lennons um þessi umsvif Rússa.

Í grein sinni fjallar Nilsen um rússneska njósnaskipið Jantar sem sent var að ströndum Argentínu í leit að týndum kafbáti þar eins og sagt hefur verið frá hér á síðunni. Í bresku skýrslunni segir að um borð í Jantar séu tveir litlir kafbátar sem nota megi til að skera á strengi og kapla eða hlera umferð sem fer um þá.

Frá árinu 2015 hefur skipinu verið siglt frá Kóla-skaga með strönd Noregs, yfir Atlantshaf, með strönd Norður-Ameríku frá Kanada í norðri til Kúbu í suðri. Unnið er við smíði systurskipsins Almaz í Kaliningrad, um borð í því verða einnig tveir litlir kafbátar.

Þetta kort sýnir neðansjávarstrengi.
Þetta kort sýnir neðansjávarstrengi.

Neðansjávar eru 213 sjálfstæðir ljósleiðarastrengir alls rúmlega 800.000 km á lengd. Þeir eru kallaðir lífæðar nútíma samfélags og í skýrslu sinni segir Rishi Sunak að á einum degi flytji ljósleiðara-strengirnir um 15 milljón peningafærslur þar sem um 10 trilljón dollarar skipta um hendur. Af fjarskiptum í heiminum fara um 97% um neðansjávarstrengi. Gervihnettir hafa enga burði til að flytja þetta gagnamagn verði skorið á strengina.

Sunak þingmaður nefnir Norðurlöndin sérstaklega þegar hann ræðir ágang Rússa gagnvart neðansjávarstrengjum. Nokkrir strengir tengja Eystrasaltsríkin við Svíþjóð og Finnland, Danmörk er tengd við Svíþjóð, Bretland, Ísland, Þýskaland og Noreg. Frá Noregi liggja tveir strengir við Svalbarða auk þewss sem ýmsir fjarskiptastrengir eru í sjó milli staða í Noregi til dæmis til Finnmerkur, fylkisins sem liggur að Rússlandi í norðri.

Ritstjóri Barents Observer ræðir við Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, sem segir:

„Hernaðarmáttur Rússa hefur aukist veruleha undnafarin ár, einnig í nágrenni okkar. Þeir efla getu sína, þjálfa meira og æfa. Á norðurslóðum hefur þó enn almennt haldist stöðugleiki og samvinna. Aukin hernaðarumsvif sýna að við og bandamenn okkar verðum að fylgjast náið með aðgerðum Rússa og þróuninni í nágrenni okkar.“

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …