
Árlega er efnt til hersýningar 9. maí á Rauða torginu í Moskvu þegar minnst er sigurs í síðari heimsstyrjöldinni. Að þessu sinni vakti sérstaka athygli blaðamanna Jyllands-Posten að sýndar voru skotflaugar sem rússneski herinn hefur sett upp fyrir norðan heimskautsbaug. Einkennismerki þeirra er ísbjörn sem sýnir tennurnar í árásarstöðu. Þá var einnig til sýnis herbúnaður sem Rússar hafa notað í Sýrlandi.
Segja blaðamennirnir að hersýningin hafi að þessu sinni verið enn ein áminningin um hve langt Rússar hafi náð við að endurreisa her sinn eftir að þeir hófu þá vegferð að lokinni innrás þeirra í Georgíu árið 2008. Þá hafi herinn einnig sýnt hve langt hann teygir sig til norðurs og suðurs.
„Evrópumenn gera sér örugglega ekki grein fyrir ógninni við öryggi sitt, frið og velferð. Já, það er rétt, Rússar vinna að því að styrkja viðveru sína bæði á norðurslóðum, við Eystrasalt, á Svartahafi og Miðjarðarhafi,“ segir Adam Thomson, forstjóri hugveitunnar European Leadership Network, en hann var sendiherra Breta hjá NATO til ársloka 2016.
Í Jyllands-Posten segir að um þessar mundir sýni Rússar sig á vettvangi hermála og alþjóðstjórnmála á svæðum þar sem þeir hafi verið meira og minna ósýnilegir síðan Sovétríkin hrundu fyrir 25 árum.
Líbía er nefnd sem dæmi þar sem Rússar hafi búið um sig undanfarin ár. Þeir hafa þar notið virkrar samvinnu við stríðsherrann Khalifa Haftar sem hlaut menntun sína í Sovétríkjunum og fær nú vopn og þjálfun manna sinna frá Moskvu.
Luigi Binelli Mantelli, yfirmaður ítalska hersins frá 2013 til 2015, telur ekki ólíklegt að vegna þessarar samvinnu leyfi Haftar Rússum að reisa flotastöð á yfirráðasvæði sínu í austurhluta Líbíu.
Rússar hafa komið sér fyrir á Krímskaga og sækja inn í Donbas-héraðið í Úkraínu frá árinu 2014. Mantelli flotaforingi telur að nú sé „opin keppni“ milli Rússa og vestrænna þjóða um Miðjarðarðarhafssvæðið. Í grein í vefritinu EUobserver varar Luigi Binelli Mantelli, fyrrv. flotaforingi, vestrænar þjóðir við að Rússar vinni að því að slá „járnhring“ um Evrópu.
Í Jyllands-Posten er minnt á að sama sjónarmið og hjá Mantelli hafi fyrst verið reifað af Mark Ferguson, flotaforingja, fyrrverandi yfirmanni bandaríska flotans í Evrópu. Hann hafi bent á stálbogann frá Norður-Íshafi til Svartahafs sem minnti á járntjaldið sem Winston Churchill nefndi fyrst til sögunnar og varaði við í ræðu árið 1946.
Haft er eftir starfsmanni í höfuðstöðvum NATO í Brussel að varnaðarorð Mantellis séu ekki „alröng lýsing“ á stöðunni. Rússar vinni markvisst að því að efla her sinn og líti á sig i keppni við NATO og Vesturlönd.
Hernaðarútgjöld Rússa hafa aukist um 60% frá árinu 2010. Í Rússlandi verja stjórnvöld hærra hlutfalli vergrar landsframleiðslu til hermála en í flestum löndum heims. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart miðað við hrun hersins við upplausn Sovétríkjanna.
Í Jyllands-Posten segir að spenna hafi hlaupið í samskipti Rússa og NATO árið 2008 þegar Georgíu og Úkraínu var boðin framtíðaraðild að NATO. Í Moskvu litu menn þannig á að hugsanlega gætu herir undir merkjum NATO notað Úkraínu sem víghreiður til árása.
„Séu Rússar spurðir eru þeir vafalaust þeirrar skoðunar að það sé NATO sem reisi stálboga umhverfis Rússland með að þenja sig út með nýjum aðildarríkjum í austri og auka viðveru sína í suðvestur hluta Asíu,“ segir Adam Thomson og vísar þar meðal annars ril NATO-hermanna í Afganistan.
Fyrir nokkrum dögum skrifaði hernaðarfræðingurinn Oleg Odnokolenko grein í áhrifamikið dagblað í Moskvu, Nezavisimaja Gazeta, þar sem hann varaði við vaxandi ógn við vestur landamæri Rússlands.
Fyrirsögn greinarinnar var: NATO safnar liði til innrásar. Þar sagði meðal annars „ástandið við landamæri Rússlands minnir á stöðuna við upphaf stríðs“. NATO hefði stóraukið liðsafla sinn og æfingar í nágrenni Rússlands.
Frá vestrænum sjónarhóli eru yfirlýsingar af þessu tagi ekki annað en hræðsluáróður. Innan NATO telja menn að með því að efla fælingarmátt-kjarnorkuvopna, með aukinni áherslu á tölvuvarnir í netheimum og aukinni hernaðarlegri viðveru í Eystrasaltslöndunum og Póllandi hafi verið brugðist við breyttum aðstæðum á viðunandi hátt.
Fyrsti ríkisoddvitafundur NATO eftir að Donald Trump varð forseti Bandaríkjanna verður í Brussel í vikunni. Heimildarmaður innan NATO segir við Jyllands-Posten að hann telji ekki líklegt að viðbrögð við hervæðingu Rússa verði ofarlega á dagskrá þess fundar. Ákvarðanir um svör við henni hafi þegar verið teknar og unnið sé að framkvæmd þeirra. Enginn trúi því heldur að eins og sakir standa grípi Rússar til vopna gegn NATO. Á hinn bóginn sé nauðsynlegt að fylgjast náið með framvindunni.