Home / Fréttir / Rússar reiðir Lettum vegna niðurrifs á sovésku minnismerki

Rússar reiðir Lettum vegna niðurrifs á sovésku minnismerki

Unnið að niðurrifi sovéska minnismerkisins í Limbazi.
Unnið að niðurrifi sovéska minnismerkisins í Limbazi.

Ríkisstjórn Lettlands hefur séð til þess að leifar af minnismerki til heiðurs sovéskum sjómönnum hafa verið fjarlægðar með vísan til almannaöryggis. Rússar hafa mótmælt niðurrifi minnismerkisins.

Til minningar um dauða 26 sovéskra sjómanna í Norður-Lettlandi í síðari heimsstyrjöldinni var reist minnismerki um þá í borginni Limbazi árið 1974 þegar Lettland var enn hluti Sovétríkjanna. Lettar hafa hins vegar leitast við, frá því að þeir hlutu sjálfstæði árið 1991, að draga skil á milli eigin sögu og þess sem gerðist í landi þeirra undir sovéskri stjórn. Þessi viðleitni hefur meðal annars birst í niðurrifi minnismerkja um kommúnismann eða þau hafa verið látin drabbast niður.

Minnismerkið í Limbazi var að hruni komið þegar heimamenn fjarlægðu það fyrir nokkrum vikum. Þeim sem brutu síðustu leifarnar niður þótti ekki við hæfi að viðhalda neinu sem minnti á sjómennina eftir að athuganir leiddu í ljós að þeir hefðu myrt nokkra úr hópi heimamanna á sínum tíma.

Rússnesk stjórnvöld sendu mótmælaorðsendingu gegn niðurrifi minnismerkisins og lýstu aðgerðir sveitarstjórnarinnar „óviðunandi“ og kröfðust svara frá lettneskum stjórnvöldum. Rússnesk yfirvöld telja að heiðri Rússa vegið séu sovésk minnismerki fjarlægð. Þau grípa til harðra mótmæla í hvert sinn sem þeim finnst vegið að sovéskum höggmyndum erlendis

Raimonds Jansons, talsmaður lettneska utanríkisráðuneytisins, sagði mánudaginn 26. september að ríkisstjórnin hefði svarað Rússum með milligöngu sveitarstjórnarinnar í Limbazi. Hann sagði að minnismerkið hefði verið fjarlægt vegna nálægðar þess við skóla, það hefði skapað hættu fyrir vegfarendur þar á meðal börn. Í niðurrifinu fælist ekkert sögulegt uppgjör.

Litháar og Pólverjar, nágrannar Letta, hafa einnig fjarlægt sovésk minnismerki nýlega undir mótmælum frá Rússum. Borgarstjóri Vilnius, höfuðborgar Litháens, hafði sjálfur forystu um að fjarlægja nokkrar stórar dæmigerðar sovéskar bronsmyndir af brú í miðborginni í Vilnius af ótta við að þær gætu verið vegfarendum hættulegar vegna hrörleika. Þegar Rússar ráku upp ramakvein vegna þessa kom tillaga um það frá Vilnius að skipt yrði á styttunum og sögulegum gripum frá Litháen í rússneskum söfnum. Til slíkra skipta kom þó ekki.

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …