Home / Fréttir / Rússar ráðast á Navalníj-baráttumann í Litháen

Rússar ráðast á Navalníj-baráttumann í Litháen

Leonid Volkov ber merki árásarinnar í andliti.

Stjórnvöld í Litháen saka útsendara frá Moskvu um að hafa ráðist á Leonid Volkov (43 ára) fyrir utan heimili hans í Vilnius og skaðað hann með hamri. Volkov var árum saman aðstoðarmaður rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalníjs sem talið er að hafi verið myrtur í fangabúðum í Síberíu í febrúar 2024.

Öryggislögreglan í Litháen segir að árásin sem gerð var að kvöldi þriðjudagsins 12. mars hafi átt að útiloka að Volkov gæti beitt sér gegn Vladimir Pútín í forsetakosningunum í lok vikunnar.

„Maðurinn réðst á mig úti í garð, hann lamdi mig um 15 sinnum í fótinn. Fóturinn er svo sem í lagi. Það er sárt að ganga … Honum tókst hins vegar að handleggsbrjóta mig,“ sagði Volkov á færslu á Telegram þar sem hann lýsti árásinni. „Það vakti greinilega fyrir þeim að lemja mig í klessu.“

Gitanas Nausėda, forseti Litháens, sagði að þetta hefði verið skipulögð árás á aðstoðarmann Navalníjs og hún væri liður í öðrum ögrunum gegn Litháum. „Ég get aðeins sagt eitt við [Vladimir] Pútin: enginn er hræddur við þig hér.“

Öryggisyfirvöld í Litháen segja að árásin hafi líklega verið skipulögð og hrundið í framkvæmd af ráðamönnum í Moskvu til að hræða rússneska stjórnarandstæðinga frá því að hafa áhrif á rússnesku forsetakosningarnar um helgina. Renatas Požėla, ríkislögreglustjóri Litháens, sagði að lögregla legði mikið á sig til að upplýsa árásina.

Hann sagði að hér væri um einskiptis atvik að ræða sem yrði upplýst. Fólk þyrfti ekki að fyllast ótta vegna þessa.

Volkov hét því erfir árásina að halda baráttunni gegn Pútin áfram og hvatti Rússa til að taka virkan þátt í kosningamótmælum.

Navalníj-hópurinn birti myndir eftir árásina sem sýna Volkov blóðugan á höfði og fótleggjum. Á annarri mynd sést að rúður hafa verið brotnar í bifreið.

Nú er tæpur mánuður liðinn frá því að fréttir bárust af óvæntu andláti Navalníjs í rússneskum fangabúðum fyrir norðan heimskautsbaug. Volkov og Julia Navalanja, ekkja Alexeis, segja Rússlandsforseta bera ábyrgð á dauða Navalníjs.

Nokkrum klukkustundum fyrir árásina hafði Volkov sagt við sjálfstæða rússneska miðilinn Meduza að hann óttaðist um öryggi sitt eftir dauða Navalníjs. Nú fælist helsta hættan í því að þau yrðu myrt, það lægi í augum uppi.

Bandamenn Navalníjs hafa ekki orðið fyrir árás áður frá því að þeir yfirgáfu Rússland fyrir rúmum þremur árum.  Volkov og félagar hans í Navalníj-hópnum hafa búið í Vilnius síðan 2021 þegar rússnesk yfirvöld úrskurðuðu hópinn sem „öfgasamtök“. Flestir í hópnum eru eftirlýstir af rússnesku öryggislögreglunni og yrðu dæmdir til langrar fangavistar í Rússlandi.

Í grein í The Washington Post miðvikudaginn 13. mars hvetur Julia Navalnaja ráðamenn Vesturlanda til að láta hjá líða að viðurkenna fölsuðu úrslitin í rússnesku forsetakosningunum.

„Heimurinn verður nú seint og um síðir að átta sig á að Pútin er ekki sá sem hann vill líta út fyrir að vera. Hann er valdaræningi, harðstjóri, stríðsglæpamaður – og morðingi.“

Heimild: The Guardian

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …