Home / Fréttir / Rússar ráðalausir gagnvart risa-olíumengun

Rússar ráðalausir gagnvart risa-olíumengun

Reynt að halda olíunni í skefjum.
Reynt að halda olíunni í skefjum.

Rúmlega 20 þúsund lestir af dísilolíu þekja nú víðáttumikið svæði, á, læki og freðmýri (túndru) vegna leka úr olíuþró í eigu fyrirtækisins Nornickel í Síberíu. Yfirvöldum var ekki tilkynnt um lekann fyrr en tveimur sólarhringum eftir að hann hófst og þau eru sögð næsta ráðalaus andspænis honum.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á Twitter laugardaginn 6. júní að dapurlegt væri að heyra fréttir um olíulekann og þrátt fyrir ágreining við Rússa væru Bandaríkjamenn reiðubúnir að veita Rússum aðstoð til að draga úr umhverfishörmungunum og til að veita tæknilega aðstoð.

Svetlana Radionova frá rússnesku umhverfisstofnuninni, Rosprirodnadzor, sagði eftir að hafa heimsótt svæðið að um 6.000 lestir af dísilolíu hefði lekið út í freðmýrina og um 15.000 lestir væru í ám og lækjum á svæðinu sem væri að minnsta kosti 20 km langt. Í þeirri fjarlægð frá þrónni var dísilolían allt að 20 cm þykk. Hún gerði Vladimir Pútin forseta grein fyrir alvarleika mengunarinnar á fjarfundi með fleirum miðvikudaginn 3. júní.

Olíuslysið varð að morgni föstudags 29. maí en það var ekki fyrr en sunnudaginn 31. maí sem yfirvöldum var skýrt frá því. Það er undirfyrirtæki í eigu Nornickel, Norilsk-Taymyr orkufyrirtækið, sem framleiðir orku á þessu svæði í Austur-Síberíu innan stjórnsýslumarka Krasnojarsk. Norilsk er bær fyrir norðan heimskautsbaug og gáfu yfirvöld þar út stutta yfirlýsingu um olíulekann mánudaginn 1. júní án þessa að lýsa alvarleika hans.

Nú hafa nokkur hundruð starfsmenn neyðarástandsráðuneytisins, (Emercom), verið sendir til hreinsunarstarfa á svæðinu. Forstöðumaður Emercom segir að lekinn hafi orðið þegar jarðvegur undir olíuþrónni gaf sig og grunnur þróarinnar varð ónýtur. Þetta er rakið til þess að um nokkurra ára skeið hefur hlýnun jarðar leitt til þess að freðmýrarnar bráðna og hætta að veita fyrra viðnám. Eftir lekann braust út eldur á svæðinu.

Vladimir Pútin er sagður hafa brugðist illa við fréttum af því hve seint og illa yfirvöldum var gerð grein fyrir málinu. Beindi forsetinn harðri gagnrýni að Aleksandr Uss héraðsstjóra fyrir viðbrögð hans. Þótti forsetanum lítið gagn í skýrslu Uss um málið miðvikudaginn 3. júní. Forsetinn á að hafa sagt:

„Hvurslags skýrsla er nú þetta? Hvað á svo að gera núna? Þú ert jú héraðsstjórinn. Hvað gerðist að þínu mati og hvers vegna fréttu yfirvöldin fyrst af því eftir tvo daga? Þurfum við virkilega að nota samfélagsmiðla til að frétta af hamförum?“ spurði Pútin héraðsstjórann. Ekki nóg með það heldur spurði hann Uss: „Er örugglega allt í lagi með þig?“ og gaf til kynna með handarhreyfingu að Uss væri galinn.

Á þeim slóðum þar sem olían dreifir sér í votlendi og ám er ekki neitt til neins vegna slyss af þessu tagi. Á fjarfundinum með Pútin gat enginn viðmælandi hans bent á neitt úrræði til að hreinsa olíuna. Sé unnt að ná henni úr ánni eru engir vegir við hana til að flytja úrganginn á brott. Uss sagði heimamönnum helst detta í hug að kveikja í olíunni þótt þeir kynnu ekkert fyrir sér í því.

Rússneski náttúruauðlindaráðherrann leggst gegn slíkum stórbruna á þessum slóðum, hann mundi leiða til stórvandræða. Hann taldi að ráðuneyti sitt og hugsanlega her Rússlands yrði að koma að hreinsuninni.

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …