Home / Fréttir / Rússar opna kínversku strandgæslunni leið að Norður-Íshafi

Rússar opna kínversku strandgæslunni leið að Norður-Íshafi

Kínverskir fulltrúar fylgjast með strandgæsluæfingu Rússa í Barentshafi.

Kínverska strandgæslan lætur æ meira að sér kveða í samstarfi við Rússa í norðurhöfum. Mánudaginn 24. apríl var gengið frá tímamóta samkomulagi um samstarf milli fulltrúa hennar og rússnesku strandgæslunnar, deildar innan öryggislögreglunnar, FSB. Síðan var kínverskum fulltrúum boðið að fylgjast með rússneskri sjóslysaæfingu.

Rússar hafa hallað sér í austur eftir að hlé varð á samstarfi þeirra við Norðurskautsríkin sjö vegna innrásarinnar í Úkraínu. Að norðurhöf séu opnuð á þennan hátt fyrir Kínverjum markar umtalsverð geópólitísk umskipti.

„Samvinna um strandgæsluverkefni takmarkast við ákveðnar aðgerðir og er gjarnan talin meinlausari en hernaðarlegt samstarf,“ segir Andreas Østhagen, sérfræðingur í öryggismálum norðurslóða við norsku Firdtjof Nansen stofnunina.

„Strandgæsluverkefni snúa að gæslu fullveldis á hafi úti, gæslu fiskveiðihagsmuna og aðgangs að olíu og gasi. Að hleypa Kínverjum að eftirliti með fiskveiðum yrði stórt skref til raunhæfs samstarfs sem snertir einnig öryggisgæslu,“ segir Østhagen við norsku vefsíðuna Barents Observer föstudaginn 28. apríl.

Langt er síðan kínverskir embættismenn lýstu Kína sem „nágranna norðurslóða“ (near-Arctic state). Til þessa hefur návist Kínverja takmarkast við þátttöku í ráðstefnum, árlegar rannsóknarferðir og nokkrar fjárfestingar í vinnslu rússneskra náttúruauðlinda auk fáeinna skipaferða milli Evrópu og Asíu eftir Norðurleiðinni, siglingaleiðinni fyrir norðan Rússland.

Barents Observer hefur sagt frá því að Kínverjar vinni að smíði kjarnorkuknúins ísbrjóts. Þá eru prammar undir tvö ný fljótandi kjarnorkuver fyrir norðurströnd Síberíu nú í smíðum í Kína.

Í samkomulaginu sem var ritað undir í Múrmansk 24. apríl er rætt um samstarf gegn hryðjuverkum, ólöglegu farandfólki, smygli á fíkniefnum og vopnum auk aðgerða gegn ólöglegum fiskveiðum. Háttsettir foringjar í landamæragæslu FSB og kínversku strandgæslunnar rituðu undir samkomulagið.

„Þetta sýnir að Rússum er kappsmál að bjóða Kínverjum þátttöku í verkefnum sem við höfum talið að Rússar vildu hafa í eigin höndum,“ segir Andreas Østhagen.

Hann telur umtalsverða stefnubreytingu felast í samkomulaginu.

„Við höfum talið að Rússar hefðu almennt efasemdir um að hleypa Kínverjum of nálægt Norður-Íshafinu en Úkraínustríðið kann að hafa breytt forsendunum fyrir þeirri skoðun,“ segir Østhagen.

Hann segir erfitt að sjá fyrir sér hver framtíðin verði í norðurslóðasamvinnu Kínverja og Rússa en tekur þó þetta dæmi:

„Þetta minnir mig dálítið á það þegar tengdamóðir mín vill dveljast hjá okkur í nokkrar vikur „þangað til hún finnur eitthvað annað“.“

Hann segir að líklega sjái Norðmenn ekki á næstunni kínversk strandgæslu- eða herskip við störf á Barentshafi. Hins vegar kunni nærvera Kínverja að verða til vandræða fyrir Norðmenn í samvinnu þeirra við rússnesku strandgæsluna (FSB) vegna öryggishagsmuna.

Norðmenn hættu ekki strandgæslusamstarfi við Rússa á Barentshafi eftir innrás þeirra í Úkraínu, voru það tengsl sem Norðmenn töldu ekki ástæðu til að slíta af tilliti til öryggishagsmuna norskra sjófarenda.

Í frétt Barents Observer  kemur einnig fram að Kínverjar hafi áhuga á láta smíða fyrir sig skip í Múrmansk.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …