
Rússar sögðu fimmtudaginn 13. febrúar að þeim stæði alls ekki á sama um að fulltrúar bandaríska flughersins hefðu fyrir nokkru farið til Jan Mayen. Hvöttu þeir norsk stjórnvöld til að stuðla ekki að neinu sem græfi undan stöðugleika á þessu strategíska svæði.
Hópur manna frá bandaríska flughernum heimsótti Norðmenn sem dveljast á Jan Mayen í nóvember 2019 til að kanna hvort bandarísk C-1301 Super Hercules herflutningavél gæti lent á flugbraut eyjunnar.
Þegar fulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins ræddi heimsókn Bandaríkjamannanna við blaðamann Reuters-fréttastofunnar sagði hann að nýlegar aðgerðir á vegum norska hersins beindust að lokum gegn Rússum og þær minnkuðu stöðugleika á svæðinu.
„Við vonum að stjórnvöld í Osló sýni ábyrgð og framsýni við mótun stefnu sinnar í norðri og haldi sig frá öllu sem veikir svæðisbundinn stöðugleika og skaðar tvíhliða samskipti,“ sagði fulltrúi utanríkisráðuneytisins.
Fyrr í þessum mánuði sökuðu rússnesk yfirvöld norsk stjórnvöld um að takmarka svigrúm sitt á Svalbarða. Óskuðu Rússar eftir viðræðum við Norðmenn til að leysa málið.
Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, hefur gert lítið úr áhrifum ferðar Bandaríkjamannanna til Jan Mayen á stöðu öryggismála á norðurslóðum og samskipti Norðmanna við Rússa.
„Flugferðir einstakra flutningavéla til Jan Mayen á vegum bandalagsþjóða hefur ekki áhrif á stöðu eða stefnu öryggismála á norðurslóðum,“ sagði varnarmálaráðherrann við Stórþingið.
Hann sagði að vegna álags á norska flugherinn hefði bandamönnum Norðmanna verið send beiðni á árinu 2019 um aðstoð með flutningavélum. Flugvélar frá Austurríki, Svíþjóð, Danmörku og Frakklandi hefðu flogið til Jan Mayen á árunum 2017 til 2019.
„Jan Mayen verður ekki notuð í þágu hernaðaraðgerða,“ sagði norski varnarmálaráðherrann.
Heimild: Reuters, Maria Kiselyova Moskvu og Gwladys Fouche Osló.