Home / Fréttir / Rússar ögra Tyrkjum með því að brjóta lofthelgi þeirra

Rússar ögra Tyrkjum með því að brjóta lofthelgi þeirra

Sprengja sett á orrustuþotu.
Sprengja sett á orrustuþotu.

Brot Rússa á lofthelgi Tyrkja um síðustu helgi „virðast ekki slysni“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á blaðamannafundi þriðjudaginn 6. október. Hann sagði einnig að Rússar hefðu ekki gefið „neina raunverulega skýringu“ á athæfi sínu sem „stóð lengi“. Rússar sögðu að laugardaginn hefðu þeir forðað sér undan veðri og dvalist skamma stund í tyrknesku lofthelginni.

Tyrkir segja að ókunn orrustuþota hafi fryst ratsjár á átta þotum þeirra mánudaginn 5. október. Svipað atvik gerðist sunnudaginn 4. október þegar ókunn MiG-29 þota – sem kann að hafa verið sýrlensk – frysti ratsjár tyrkneskra þotna í rúmar fimm mínútur við landamæri Tyrklands og Sýrlands

Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna koma saman í Brussel fimmtudaginn 8. október. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, efndi til blaðamannafundar þriðjudaginn 6. október til að kynna það sem yrði efst á baugi á fundinum.

Hann sagði að brot rússneskra hervéla gegn lofthelgi Tyrklands væru óviðunandi. Stoltenberg boðaði aukafund fastafulltrúa NATO-ríkjanna í Atlantshafsráðinu mánudaginn 5. október þar sem lýst var þungum áhyggjum vegna aukins herafla Rússa í Sýrlandi og árásum rússneskra flugvéla á Hama, Homs og Idlib en þær hafi ekki ráðist á skotmörk í Ríki íslams.

Fastaráðið sagði einnig að hernaðaraðgerðir Rússa hefðu farið inn á enn hættulegri braut með brotum gegn lofthelgi Tyrklands hinn 3. og 4. október þegar orrustuþotum rússneska flughersins af gerðunum Su-30 og SU-24 hafi verið flogið inn yfir Hatay-hérað í Tyrklandi. Vélunum hafi verið flogið inn í tyrkneska lofthelgi þótt tyrknesk yfirvöld hafi skýrt, tímanlega og hvað eftir annað sent þeim viðvaranir. Tyrkneskar vélar hafi, í samræmi við vinnureglu NATO, flogið að rússnesku vélunum til að skrá þær. Við svo búið hafi rússnesku vélarnar snúið aftur inn yfir Rússland.

Fastaráðið mótmælti harðlega þessum brotum gegn lofthelgi Tyrklands og fordæmdi þessa flug inn í loftrými NATO og brot gegn friðhelgi þess. Þá taldi það að hér væri um einstaklega ábyrgðarlausa hegðun af hálfu Rússa að ræða. Ráðið hvatti Rússa til að sjá að sér og gera tafarlaust grein fyrir hvað að baki þessum brotum býr. Þá gæti þeir þess að koma í veg fyrir frekari brot af þessu tagi.

Minnt er á að öryggi bandalagsríkjanna sé ódeilanlegt og aðildarríkin standi fast að baki Tyrkjum. Af hálfu bandalagsins verði áfram fylgst mjög náið með framvindu mála á suðaustur landamærum NATO.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …