Home / Fréttir / Rússar ögra Hollendingum og Bretum á norðurslóðum

Rússar ögra Hollendingum og Bretum á norðurslóðum

Jeff Mac Mootrey, hershöfðingi og aðgerðastjóri hollenska landgönguliðsins.
Jeff Mac Mootrey, hershöfðingi og aðgerðastjóri hollenska landgönguliðsins.

Rússneskar orrustuþotur og rússnesk skip reyna að ögra breskum og hollenskum landgönguliðum við æfingar á norðurslóðum segir Jeff Mac Mootrey, hershöfðingi og aðgerðastjóri hollenska landgönguliðsins.

Frétt um þetta birtist á bresku vefsíðunni The Telegraph sunnudaginn 14. október en þar segir Mac Mootrey að spenna hafi myndast skammt undan strönd Noregs og hún sé hluti af því sem kalla megi „kalda stríðið 3.0“ og lýst sé með því að Rússar sýni hernaðarmátt sinn og tækni til að skapa vestrænum stjórnvöldum erfiðleika.

„Augljóst er að rússneski flotinn hefur sífellt meiri áhuga á æfingum okkar,“ sagði hershöfðinginn við blaðamann The Telegraph á fundi í Rotterdam.

„Í þessu sambandi má nefna að hluti æfinga okkar snýst um að verjast elflaugaárás, þegar efnt er til þessa hluta fjölgar rússneskum skipum yfirleitt og þau sigla nær okkur en þau hafa gert á undanförnum áratugum. Þeim er greinilega mikið í mun að eftir þeim sé tekið,“ sagði hershöfðinginn. Hann er meðal æðstu herforingja Hollendinga.

Breskir landgönguliðar æfa í Noregi.
Breskir landgönguliðar æfa í Noregi.

„Rússneskar orrustuvélar fljúga einnig nær herskipum okkar en áður til þess eins að eftir þeim sé tekið, það má næstum segja að þær geri þetta á ögrandi hátt,“ bætti hann við.

Blaðamaðurinn segir að um 400 breskir landgönguliðar hafi verið við æfingar við og í Noregi með Hollendingum undanfarið. Minnt er á að hollenski hershöfðinginn láti þessi orð falla um tveimur vikum eftir að Gavin Williamson, varnarmálaráðherra Bretlands, kynnti varnarstefnu Breta vegna norðurslóða þar sem gert er ráð fyrir að 800 breskir landgönguliðar verði við æfingar í Noregi á næsta ári. Það verður einnig reist stöð fyrir breska liðið í norðurhluta Noregs segir í fréttinni.

Vitnað er til orða Williamsons sem sagði á flokksþingi íhaldsmanna:

„Kafbátaumsvif Rússa eru mjög nálægt því sem þau voru í kalda stríðinu og það er nauðsynlegt að snúast gegn þeim.

Væri unnt að færa klukkuna til baka um 10 ár sæjum við að margir töldu þá að tími kafbátaumsvifa á norðurslóðum, í Norður-Atlantshafi, og ógn vegna þeirra hefði horfið með falli Berlínarmúrsins. Nú birtist þessi ógn harkalega að nýju.“

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …