Home / Fréttir / Rússar ögra Dönum með sprengjuþotu á Eystrasalti

Rússar ögra Dönum með sprengjuþotu á Eystrasalti

Rússnesk Tupolev Tu-160 sprengjuþota.
Rússnesk Tupolev Tu-160 sprengjuþota.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu síðdegis fimmtudaginn 15. júní um að langdræg sprengjuþota rússneska hersins hefði flogið á alþjóðaflugleið yfir Eystrasalti þann sama dag. Í för með þotunni voru eftirlitsflugvél og orrustuvél.

Þarna var um Tupolev Tu-160 sprengjuvél að ræða. Hún er talin hraðfleygasta sprengjuþota heims, hámarkshraði hennar er 2.200 km. á klst.

Poul Funder Larsen, fréttaritari Jyllands-Posten í Rússlandi segir að með því að senda flugvélarnar á þessar slóðir séu Rússar að sýna mátt sinn og megin. Hann segist ekki vita betur en að það sé óvenjulegt að Tu-160 sprengjuvélar séu sendar í leiðangur af þessu tagi.

Þá segir hann að í því felist sérstök yfirlýsing af hálfu rússneskra stjórnvalda að senda flugvélina þessa leið sama dag og sumarhátíð dönsku stjórnmálaflokkanna; Folkemødet, hefjist á Borgundarhólmi

„Þetta vekur sérstaka athygli og minnir á atvikið í júní 2014 þegar það gerðist einnig á tíma Folkemødet að rússneskar flugvélar eru taldar hafa æft eldflaugaárás á Eystrasalti ekki langt frá Borgundarhólmi,“ segir Poul Funder Larsen.

F-16 orrustuþota frá Danmörku og F-18 orrustuþota frá Finnlandi og nokkrar sænskar flugvélar fylgdust með ferðum rússnesku sprengjuvélarinnar að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins.

Poul Funder Larsen segir ekki óhugsandi að með fluginu 15. júní hafi Rússar viljað minna Dani á að skammt sé milli landa þjóðanna.

„Rússar hafa miklar áhyggjur af því hvort Danir verði þátttakendur í eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna og fyrir tveimur árum hótaði rússneski sendiherrann að þátttakan gæti í versta tilviki leitt til rússneskrar kjarnorkuárásar á dönsk skip sem tækju þátt í þessu varnarkerfi,“ segir Poul Funder Larsen.

Danska herstjórnin staðfesti fimmtudaginn 15. júní að rússnesku vélarnar hefðu verið á flugi á Eystrasalti milli rússnesku hólmlendunnar Kaliningrad og Borgundar án þess að láta þess getið hve nærri danskri lofthelgi þær hefðu flogið.

 

 

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …