Home / Fréttir / Rússar ögra Bandaríkjamönnum með sprengjuvélum við Alaska

Rússar ögra Bandaríkjamönnum með sprengjuvélum við Alaska

Rússnesk sprengjuvél sem kölluð er Björninn á Vesturlöndum.
Rússnesk sprengjuvél sem kölluð er Björninn á Vesturlöndum.

Tvær bandarískar orrustuþotur flugu mánudaginn 17. apríl í veg fyrir tvær rússneskar sprengjuvélar af gerðinni TU-95 úti fyrir strönd Alaska. Á Vesturlöndum kallast rússnesku vélarnar Birnir. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur staðfest þetta við CNN-sjónvarpsstöðina.

Bandarísku þoturnar fylgdu rússnesku vélunum í 12 mínútur áður en þær breyttu um stefnu og héldu til heimavallar síns í austurhluta Rússlands.

Rússnesku vélarnar flugu utan bandarískrar lofthelgi og af hálfu bandarískra yfirvalda var sagt að atvikið væri „ekki frásagnarvert“.

Adam Kinzinger, fulltrúardeildarþingmaður repúblíkana, telur að Rússarnir hafi „reynt að sýna vígtennurnar“ með því að fljúga rétt við strönd Bandaríkjanna nú þegar spenna er milli landanna. þeir hafi viljað sjá viðbrögð Bandaríkjamanna.

„Rússarnir eru að sýna okkur vald sitt til að minna okkur á að þeir séu hér enn þá,“ sagði hann við CNN.

Fjölmiðlar segja að ekki hafi verið neitt fjarskiptasamband milli bandarísku og rússnesku vélanna.

Síðast flugu rússneskar sprengjuvélar svo nærri bandarísku yfirráðasvæði 4. júlí 2015, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna,

Í frétt Jyllands-Posten um þetta mál segir að Danir hafi oft orðið fyrir sömu reynslu af hálfu Rússa. Á árinu 2016 flugu F-16 orrustuþotur 20 sinnum í veg fyrr ókunnar vélar við lofthelgi Danmerkur – hafa flug þeirra ekki verið færri í mörg ár.

Rússneskar her-flugvélar voru sérstaklega ágengar við Danmörku á árinu 2014. Þá flugu danskar orrustuvélar alls 58 sinnum í veg fyrir vélar sem ögruðu lofthelgi Danmerkur.

Claus Hjort Frederiksen, varnarmálaráðherra Danmerkur, segir að fækkun fluga í nágrenni Danmerkur sé ekki til marks um að Danir séu utan rússnesku ógnarmyndarinnar.

Hann er þvert á móti þeirrar skoðunar að Rússar ógni enn Danmörku og Vesturlöndum.

„Það er mjög líklegt að helsta ástæðan fyrir minni rússneskri flugumferð yfir Eystrasalti á árinu 2016 séu stríðsaðgerðir Rússa i Sýrlandi,“ sagði ráðherrann í tölvubréfi til Radio24syv.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …