
Rússar hafa reitt Bandaríkjamenn til reiði með því að senda tvær flugvélar sem geta flutt kjarnorkusprengjur til Venesúela. Um er að ræða vélar af gerðinni TU-160, hljóðfráar sprengjuvélar sem rússneskir flugmenn þeirra kalla Hvítu svanina. Þær lentu á Maiquetia-flugvelli skammt frá höfuðborginni Caracas mánudaginn 10. desember.
Fyrir fáeinum dögum hitti Nicolas Maduro forseti Venesúela Vladimir Pútín Rússlandsforseta í Moskvu. Maduro á í útistöðum Bandaríkjastjórn og land hans er á barmi hruns eftir áralanga sósíalíska óstjórn.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði flugið tímasóun spilltra ríkisstjórna. Ráðherrann sagði á Twitter:
„Stjórn Rússlands hefur sent sprengjuvélar hálfa leið í kringum hnöttinn til Venesúela. Íbúar Rússlands og Venesúela ættu að átta sig á hvað hér er í raun á ferðinni: tvær spilltar ríkisstjórnir sóa almannafé og þrengja að frjálsræði og frelsi á kostnað þjóða sinna.“
Fjármálastjórn Maduros hefur einkennst af fjáraustri, efnahagur Venesúela er í rúst vegna lækkunar olíuverðs, milljörðum hefur verið kastað á glæ. Tugir þúsunda manna hafa flúið til nágrannaríkjanna vegna skorts á fæðu.
Stjórn Venesúela leitaði aðstoðar hjá Rússum sem urðu helstu lánardrottnar landsins. Þeir fjárfestu í olíuvinnslu og veittu her landsins stuðning til að ögra Bandaríkjamönnum.
Rússnesk stjórnvöld svöruðu Pompeo og sögðu málflutning hans óviðeigandi og ekki við hæfi utanríkisráðherra.
„Við erum ekki sammála því mati að þetta sé fjársóun. Það er alls ekki við hæfi að fulltrúi þjóðar sem ver svo miklu fé til varnarmála að það dygði til að brauðfæða alla Afríku tali á þennan veg,“ sagði Dmitríj Peskov, talsmaður Pútíns, við blaðamenn.
Rússneska varnarmálaráðuneytið gaf ekkert upp um hvort flugskeyti væru um borð í vélunum, hve lengi þær yrðu í leiðangri sínum eða hvert væri hlutverk þeirra.
Rússnesku vélarnar hafa áður verið notaðar til að sýna hernaðarmátt sinn fyrir framan nefið á Bandaríkjamönnum.
Maduro hefur hvað eftir annað sagt að hugsanlega réðust Bandaríkjamenn inn í Venesúela. Bandaríkjastjórn segir ekki neinar áætlanir hafa verið gerðar um slíka innrás.
Á vefsíðunni Barents Observer miðvikudaginn 12. desember kom fram að norskar orrustuþotur fylgdu rússnesku vélunum þegar þær flugu suður með strönd Noregs. Við svo búið tóku breskra Typhoon-þotur við fylgdinni suður fyrir Bretlandseyjar.
Leiðin sem rússnesku vélarnar flugu er um 10.000 km. Þetta er í þriðja sinn frá hruni Sovétríkjanna sem langdrægar rússneskar sprengjuvélar fara til Venesúela. Áður gerðist þetta árið 2003 og árið 2008.