Home / Fréttir / Rússar og Úkraínumenn skiptast á flugskeytaárásum

Rússar og Úkraínumenn skiptast á flugskeytaárásum

Frá rússnesku landsmæraborginni Belgorod.

Yfirvöld í Moskvu sögðu föstudaginn 5. janúar að daginn áður hefðu loftvarnakerfi þeirra dugað til að skjóta niður úkraínsk flugskeyti yfir Krím og rússnesku landamæraborginni Belgorod.

Einn særðist í stærstu borg Krímskaga, Sevastopol, þegar brak féll á hann eftir loftárás, sagði landstjóri Rússa á skaganum. Hann sagði að rúmlega 100 manns hefðu verið flutt frá heimilum sínum síðdegis fimmtudaginn 4. janúar af ótta við ósprengdar sprengjur.

Á sama tíma og ráðist var á Sevastopol særðust tveir menn af sprengjubrotum í rússnesku landamæraborginni Belgorod. Þar féllu 25 manns, þeirra á meðal fimm börn, laugardaginn 30. desember. Var það ein mannskæðasta árásin á rússneskt landsvæði frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022.

Vegna árásanna var umferð Rússa stöðvuð yfir Krímbrúna sem tengir Krímskaga við rússneska meginlandið. Brúin er helsta flutningaæð Rússa til skagans.

Að kvöldi miðvikudagsins 3. janúar skutu Rússar tveimur S-300 flugskeytum á miðborg Kharkiv, annarrar stærstu borgar Úkraínu. Rússar hafa í um það bil viku gert næstum daglega loftárásir á borgina.

Þannig skiptast báðir stríðsaðilar á að senda sprengjur með flaugum hvor á annan á sama tíma og lítið breytist við víglínuna sjálfa.

Bandaríkjamenn sögðu fimmtudaginn 4. janúar að Rússar hefðu notað langdrægar flaugar frá Norður-Kóreu til árása á Úkraínu 30. desember. Þá reyndu Rússar að kaupa fleiri flaugar frá Írönum.

Að kvöldi fimmtudagsins 4. og aðfaranótt föstudagsins 5. janúar tókst Úkraínumönnum að eigin sögn að stöðva 21 af 29 Shaded-drónum Rússa. Tveir særðust í árásinni, annar var 14 ára.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti þakkaði Þjóðverjum að kvöldi fimmtudagsins fyrir hernaðaraðstoð þeirra, einkum loftvarnabúnaðinn sem hann sagði að komið hefði á réttum tíma og fallið að brýnustu þörfum Úkraínumanna.

Mykola Bielieskov, sérfræðingur við Rannsóknastofnun Úkraínu í hermálum segir að stjórnvöld landsins eigi áfram að minnka hernaðargetu Rússa með því að auka stig af stigi árásir á skotmörk langt handan víglínunnar á hernumdum svæðum Úkraínu og í Rússlandi sjálfu.

Velja eigi sem skotmörk staði þar sem hermenn fylkja liði, herstöðvar og vopnabúr auk þess birgðastöðvar og vopnasmiðjur, segir hann í grein sem bandaríska hugveitan Atlantic Council birti.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …