Home / Fréttir / Rússar og Sýrlendingar sakaðir um efnavopnaárás í austurhluta Ghouta

Rússar og Sýrlendingar sakaðir um efnavopnaárás í austurhluta Ghouta

Myndin er frá Austur-Ghouta.
Myndin er frá Austur-Ghouta.

 

Hjálparstofnanir skýrðu um helgina frá grunsemdum um að efnavopnaárás hefði verið gerð á síðustu virki uppreisnarmanna í austurhluta Ghouta, í bænum Douma skammt frá höfuðborginni Damaskus í Sýrlandi. Sýrlenska stjórnin segir þetta rangt.

Í færslu frá sjálfboðaliðasamtökunum Hvítu hjálmarnir á Twitter sagði að varpað hefði verið eiturefni í tunnu-sprengju úr þyrlu yfir borginni Douma laugardaginn 7. apríl, að minnsta kosti 40 hefðu týnt lífi og hundruð manna særst.

„Fjölskyldur í skjóli féllu fyrir gasi í Douma, austurhluta Ghouta, földu sig í kjöllurum, köfnuðu í eitruðu gasi, fyrsta mannfall meira en 40,“ sögðu samtökin á Twitter.

Samtök heilbrigðis- og hjálparstofnana (UOSSM) sögðu að mannfallið yrði „vel yfir 100“. UOSSM sögðu einnig að meira en 500 hefðu særst.

Hersveitir Sýrlandsstjórnar, studdar af Rússum, héldu sókn sinni áfram eftir að árásin sem að ofan er lýst var gerð. Þær stefna að því að ná síðasta virki stjórnarandstæðinga í nágrenni Damaskus á sitt vald.

Sýrlenska mannréttindaeftirlitið (SOHR) sem starfar frá Bretlandi sagði að loftárásum hefði verið haldið áfram á austurhluta Ghouta sunnudaginn 8. apríl þótt fréttir hefðu borist um að vígamennirnir sem þar vörðust hefðu samið um vopnahlé við Rússa, bandamenn Sýrlandsstjórnar. Mannréttindaeftirlitið fylgist með framvindunni í Sýrlandi með aðstoð aðgerðasinna á sínum vegum í Sýrlandi.

Samtökin Syrian American Medical Society (SAMS) sögðu að klór-sprengja hefði lent á sjúkrahúsi í Douma, sex hefðu fallið. Þá hefði verið gerð önnur áras með „blönduðu efni“, þar á meðal taugaeitri, á nálæga byggingu.

Basel Termanini, varaformaður SAMS, sem búsettur er í Bandaríkjunum sagði Reuters-fréttastofunni að alls hefðu 35 farist í efnavopnaárásinni.

SANA, opinbera sýrlenska fréttastofan, sagði þessar fréttir rangar. Þar sagði:

„Nokkrir fjölmiðlar, þekktir fyrir stuðning sinn við hryðjuverkamenn, fullyrða að herinn hafi beitt efnavopnum í bænum Douma í aðgerðum sínum til að svara árásum hryðjuverkasamtaka á nokkur hverfi Damaskus og í nágrenni þeirra.“

Rússar hafna einnig fullyrðingum um að sýrlenski stjórnarherinn hafi beitt efnavopnum í Douma-árásinni.

Rami Abdulrahman, forstjóri SOHR, sagðist ekki geta fullyrt að efnavopnum hefði verið beitt. SOHR staðfesti hins vegar að 80 almennir borgarar hefðu fallið laugardaginn 7. apríl í Douma vegna þess að þeir köfnuðu í reyk eftir að hefðbundnum vopnum var kastað til jarðar.

Að kvöldi laugardags 7. apríl sagði bandaríska utanríkisráðuneytið að á þess vegum væri fylgst með stöðu mála og hefði efnavopnum verið beitt væri það á ábyrgð Rússa.

„Ekki er deilt um að valdstjórnin hefur beitt efnavopnum gegn eigin þegnum,“ sagði embættismaður utanríkisráðuneytisins í Washington í yfirlýsingu og vísaði þar til þess hvernig Sýrlandsforseti, Bashar al-Assad, og stjórn hans hefði staðið að verki. Í yfirlýsingunni sagði einnig:

„Rússar bera lokaábyrgð á því grimmdarverki að granda ómældum fjölda Sýrlendinga með efnavopnum.“

Bandaríkjastjórn tilkynnti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í mars að hún léti ekki átölulaust yrðu gerðar efnavopnaárásir í Sýrlandi.

Að morgni sunnudags 8. apríl setti Donald Trump Bandaríkjaforseti á Twitter:

„Margir fallnir, þ. á m. konur og börn, í hugsunarlausri EFNA áras í Sýrlandi. Grimmdarsvæðið einangrað og umkringt af sýrlenska hernum, algjörlega lokað frá öðrum svæðum. Putín forseti, Rússar og Íranar bera ábyrgð á stuðningi við skepnuna Assad. Dýrkeypt…“

 

Heimild: DW

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …