Home / Fréttir / Rússar og Sádar hrella Bandaríkjamenn með olíuverðstríði

Rússar og Sádar hrella Bandaríkjamenn með olíuverðstríði

 

Orkumálaráðherra Rússa Alexander Novak og orkumálaráðherra Sádi Arabíu Abdulaziz Bin Salman  skrifa undir skjöl við athöfn eftir að Vladimir Pútin  Rússlandsforseti og Salman, konungur Sádi Arabíu hittust í Riyadh, Sádi Arabíu 14. október 2019.
Orkumálaráðherra Rússa Alexander Novak og orkumálaráðherra Sádi Arabíu Abdulaziz Bin Salman skrifa undir skjöl við athöfn eftir að Vladimir Pútin Rússlandsforseti og Salman konungur Sádi Arabíu hittust í Riyadh, Sádi Arabíu 14. október 2019.

Kevin Cramer, öldungadeildarþingmaður repúblíkana frá Norður-Dakóta, hefur sent Donald Trump Bandaríkjaforseta bréf og hvatt hann til að setja bann á innflutning olíu frá Rússlandi.

„Erlend ríki nota kóróna-heimsfaraldurinn til að yfirfylla markaðinn af olíu og það veldur orkuframleiðendum hér hjá okkur tjóni,“ segir Cramer.

Í Norður-Dakóta hefur mikið af olíu verið unnið með háþrýsti niðurbroti á jarðlögum (e. fracking) á undanförnum árum.

Að morgni fimmtudags 19. mars var verð tunnu af bandarískri hráolíu 22.40 dollarar sem er langt undir kostnaði við að vinna olíu í Bandaríkjunum. Öllu bandarísk olíuvinnsla er því rekin með tapi um þessar mundir.

Þá hefur offramboðið á olíu og verðstríð um heim allan leitt til þess að erfitt er að finna geymslurými fyrir olíuna. Verð á flutningi með risaolíuskipum hefur tífaldast og þess vegna vilja fyrirtæki ekki lengur nota þau sem fljótandi geymslutanka.

„Reglan hefur verið sú að Rússar framfylgja stefnu sinni jafnan með þrýstingi. Það vekur sérstakar áhyggjur að fyrirtæki í Sádi-Arabíu sem hafa átt samstarf við okkur taka nú virkan þátt í olíuverðstríðinu,“ segir Cramer málinu sínu til stuðnings.

Hann vísar til viðbragða í Sádí-Arabíu við því að Rússar höfnuðu samvinnu við samtök olíusöluríkja, OPEC. Var ákveðið að auka olíuframleiðslu í Sádi-Arabíu um 2,5 milljón tunnur af hráolíu á sólarhring til að þrýsta sem mest á ráðamenn í Kreml.

Í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafa ráðamenn farið að þessu fordæmi og boða að olíuframleiðsla þar verði aukin 1 milljón tunna á dag.

Allt stuðlar þetta að því að hráolíuverðið nálgast nú 20 dollara á tunnu.

Þótt Bandaríkjamenn séu nú mestu olíuframleiðendur í heimi og í raun sjálfum sér nógir með olíu flytja þeir inn talsvert af hráolíu frá ýmsum löndum, þar á meðal Rússlandi. Þeim er þetta nauðsynlegt til að olíuhreinsistöðvarnar geti svarað eftirspurn bandaríska markaðarins sem vill fjölbreytt framboð á olíuvörum.

Sérfræðingar telja að Rússar þurfi olíuverð í kringum 42 dollara á tunnu til að halda fjárhag ríkisins í sæmilegu fari. Verðið núna er fjarri því.

Matsfyrirtækið Moody’s Investors Service hefur birt viðvörun um að langvarandi verðstríð geti skert lánshæfi rússneskra banka. Þeir verða að takast á við fall rúblunnar sem er mikið miðað við dollar, það er um 25% á einu ári en dollarinn er almenna viðskiptamynt olíu um heim allan.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …