Home / Fréttir / Rússar nota fyrirslátt til að loka á Barents Observer

Rússar nota fyrirslátt til að loka á Barents Observer

Atle Staalesen (t.v,) og Thomas Nilsen á ritstjórnarskrifstofu Barents Observer í Kirkenes.
Atle Staalesen (t.v,) og Thomas Nilsen á ritstjórnarskrifstofu Barents Observer í Kirkenes.

Hér á vefsugerc33.sg-host.com er oft vitnað í það sem birtist á norsku fréttasíðunni Barents Observer. Fimmtudaginn 3. september sagði Andrew Rettman, blaðamaður á vefsíðunni EUobserver í Brussel, frá baráttu útgefanda norsku síðunnar, Atle Staalsens, við rússnesk yfirvöld sem lokuðu fyrir dreifingu á Barents Observer rússnesku í Rússlandi fyrir ári.

Ástæðan sem rússneska fjölmiðlaeftirlitið, Roskomnadzor, bar fyrir sig er frétt um að samkynhneigður Sami, Dan Eriksson, frá Svíþjóð hefði verið í sjálfsmorðshugleiðingum vegna fordóma sem hann mætti. Í fréttinni sem birtist í janúar 2019 sagði frá því að Eriksson hefði sigrast á vanlíðan sinni og þunglyndi.

Þetta var „mjög falleg, sólskins saga um hamingjusaman ungan mann sem sigraðist á fjölda vandamála,“ segir Atle Staalesen útgefandi. Roskomnadzor hafi notað hana sem hreinan fyrirslátt til að loka á netdreifingu á Barents Observer í Rússlandi undir því yfirvarpi að síðan hvetti til sjálfsmorða.

Útgefandinn fór með málið fyrir rússneska dómstóla en tapaði því á tveimur dómstigum í síðara skiptið 27. ágúst sl.

Á vefsíðunni Barents Observer með aðsetur rétt við rússnesku landamærin, í Kirkenes, birtast fréttir á ensku og rússnesku og lásu um 300.000 manns síðuna árlega í Rússlandi.

Staalesen telur að lokað hafi verið á síðuna í Rússlandi af því að hún sé ein af fáum miðlum í Skandinavíu og norðurhluta Evrópu með fréttir á rússnesku.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ritstjórn síðunnar lenti í útistöðum við rússnesk yfirvöld. Þau báðu stjórnvöld í Noregi einu sinni um að banna síðuna þegar hún var í tengslum við norska stofnun. Þá hafa Rússar neitað að gefa út vegabréfsáritanir fyrir blaðamenn síðunnar.

Staalesen segir að nú búi þeir sig undir að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) í Strassborg.

EUobserver hafði samband við rússneska utanríkisráðuneytið vegna málsins og fékk þá senda frétt frá TASS-fréttastofunni þar sem því er haldið fram að Roskomnadzor hafi aðeins lokað á eina efnissíðu á vefsíðu Barents Observer.

Staalesen segir að þetta sé lygafrétt frá TASS, Barents Observer í heild komist ekki löglega yfir rússnesku landamærin nema það hafi breyst síðustu daga án vitundar ritstjórnarinnar.

Roskomnadzor getur þó ekki lokað öllum aðgangi að síðunni því að Rússar geta nýtt sér VPN-forrit eða farið á annað lén til að lesa Barents Observer.

Stóra samhengið

Á EUobserver segir að sé málið skoðað í stærra samhengi blasi við að lokunin á Barents Observer sé ekki einangruð. Til marks um það séu gögn frá samtökunum Blaðamenn án landamæra, Reporters Without Borders (RSF), í París.

Roskomnadzor hefur á undanförnum árum útilokað meira en 490.000 vefsíður oft „fyrirvaralaust og án þess að fara að lögum,“ sagði í skýrslu frá RSF í nóvember 2019.

Aðgerðirnar beinast gegn fréttasíðum, rannsóknarblaðamennsku, pólitískum tímaritum, umhverfisverndarsinnum og öðrum. Þá er lokað á smáforrit sem neita að vista gögn á rússneskum netþjónum eða yfirvöld geta ekki opnað vegna þess að þau fá ekki aðgang að dulkóðum.

Í fyrra tóku gildi lög í Rússlandi sem mæla fyrir um forræði rússneskra stjórnvalda á internetinu. Þau opna yfirvöldum nýjar leiðir til að stjórna efnisflæði um netið og loka á raunverulegar fréttir. Gjáinn vegna ólíkra aðferða við miðlun efnis á netinu stækkar milli Rússa og annarra Evrópuþjóða, segir RSF. Í Rússlandi hefur verið innleitt neteftirlit og ritstkoðun.

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …