
Í frétt danska ríkisútvarpsins, DR, mánudaginn 17. apríl segir að rússneskur sérfræðingur sitji í dönsku fangelsi fyrir mál sem hingað til hafi legið í þagnargildi. Hann sé dæmdur fyrir að hafa stundað njósnir í Danmarks Tekniske Universitet og í fyrirtækinu SerEnergy á Norður-Jótlandi.
Segist DR nú geta upplýst að sérfræðingurinn hafi miðlað stolnum upplýsingum og tæknilegum íhlutum til njósnaforingja sem hafi verið skráður sem stjórnarerindreki (d. diplomat) í sendiráði Rússlands í Kaupmannahöfn.
Timur Rasulov (47 ára) tók á móti upplýsingunum, hann var opinberlega skráður sem fyrsti sendiráðsritari.
Segir í frétt DR að fréttamenn hafi séð gögn sem sýni að Rasulov sé í raun njósnari á vegum njósnastofnunar Rússlands erlendis (SVR).
„Þetta er alvarlegt mál sem sýnir að reynt er að stunda njósnir víða í dönsku samfélagi. Rússneskur ríkisborgari hefur njósnað í því skyni að ná í upplýsingar hjá þeim sem eru í fremstu röð í rannsóknum og tækni í Danmörku,“ segir Anders Henriksen, yfirmaður gagnnjósna hjá leyniþjónustu dönsku lögreglunnar, PET.
Að skýrt sé frá þessu máli núna er vegna þess að norrænu ríkisútvarpsstöðvarnar utan Íslands, DR, NRK, SVT og Yle, hafa unnið að gerð heimildar- og hlaðvarpsþáttanna Skyggekrigen – Skuggastríðið – þar sem leynileg starfsemi Rússa á Norðurlöndum er könnuð.
SerEnergy í Álaborg sem sætti ásókn njósnara framleiðir tækni sem nýtist við orkuskipti. DR segir að nota megi sömu tækni í hernaðarlegum tilgangi, til dæmis í dróna.
Talið er að gögn sem stolið var frá fyrirtækinu verði nýtt til framleiðslu á tæknihlutum þess annars staðar – margra ára fjárfesting í rannsóknum og þróun verði í raun að engu því að keppinautar njóti forskots með að stela því sem skilar góðum árangri.
SerEnergy valdi þann kost eftir að upp komst um njósnirnar og gagnastuldinn að skipta um nafn og heitir nú Advent Technologies. Forráðamenn fyrirtækisins vilja ekki ræða þetta mál.
DR fékk aðgang að ljósmyndum sem tengjast rannsókn málsins og þar sjást meðal annars sérfræðingurinn, Alexeyj Nikiforov (38 ára) og rússneski njósnaforinginn saman á sushistað í danska bænum Lyngby.
Þá birtir DR einnig mynd af handskrifuðum lista sem PET lét fréttamönnum í té en rússneski sérfræðingurinn fékk hann frá stjórnanda sínum. Sumt var yfirstrikað á listanum þegar DR fékk hann en hann sýnir þó engu að síður um hvað Rússar vilja fá að vita með njósnum í Danmörku:
Orkuöryggi, efnafræðilegir orkugjafar, ratsjár, vélmenni, eftirlit á norðurslóðum og græn orka.

Anders Henriksen frá PET staðfestir við DR að Rússar haldi úti SVR-njósnurum í sendiráði sínu í Kaupmannahöfn. Starfsmenn SVR eigi meðal annars að safna upplýsingum um græna orku og orkuskipti. Þeir leggi sig fram um að nálgast upplýsingar um tæknilegar lausnir og sendi þær til Moskvu.
Þá geti Rússar ekki haldið úti herafla sínum án tækni frá Vesturlöndum.
Sérfæðingurinn Alexeij Nikiforov hóf störf hjá Ser Energy 2019 og var þar í rúmt ár eða þar til hann var tekinn fastur.
Hann hefur hins vegar búið í Danmörku frá árinu 2008 og var fyrst við doktorsnám í DTU. Var hann einnig dæmdur fyrir njósnir í háskólanum, fyrst í Álaborg og síðan í Vesturlandsrétti í nóvember 2021. Hlaut hann þriggja ára fangelsisdóm og brottvísun frá Danmörku „fyrir víðtækar og kerfisbundnar njósnir“.