
Rússar neituðu að veita tveimur norskum þingmönnum um vegabréfsáritun þegar þeir ætluðu að heimsækja nágrannaríki Noregs með öðrum í utanríkismálanefnd stórþingsins. Nefndarformaðurinn Anniken Huitfeldt úr Verkamannaflokknum aflýsti Rússlandsferðinni
Norska utanríkisráðuneytið segir að neitun Rússa sé rökstudd með vísan til aðildar Norðmanna að þvingunum ESB sem þeir láta einnig ná til Svalbarða.
Hægrimaðurinn Børge Brende utanríkisráðherra segir að norska utanríkisráðuneytið hafi mótmælt ákvörðun Rússa enda sé hún óréttmæt og óviðunandi. Rússneski sendiherrann hafi verið kallaður í ráðuneytið til að taka við mótmælunum.
„Fundir þingmanna eru mikilvægur liður í að rækta stjórnmálatengslin. Með ferðinni hefði verið unnt að rækta þessi tengsl enn frekar,“ segir Brende utanríkisráðherra.
Nefndarmenn ætluðu að vera fimmtudaginn 2. febrúar og föstudaginn 3. febrúar í Moskvu. Nefndin hefur ekki heimsótt Rússland á þessu kjörtímabili stórþingsins.
Engin skýring hefur fengist á því hvers vegna Rússar settu þess tvo þingmenn Trine Skei Grande, leiðtoga miðjuflokksins Venstre, og Bård Vegar Solhjell úr Sósíalíska vinstriflokknum (SV) á svartan lista. Þau hafa bæði oftar en einu sinni farið til Rússlands.
Í samtali við norsku fréttastofuna NTB sagðist Solhjell ávallt hafa mælt með nánu og góðu samstarfi Norðmanna og Rússa. Hann hefði hlakkað til ferðarinnar og niðurstaðan væri mjög dapurleg.
Grande segir að þetta verði ekki til þess að hún hætti að lýsa skoðun sinni afdráttarlaust á rússneskum stjórnmálum og stjórn Pútíns.
Utanríkisráðherrann segir að þegar í nóvember 2016 hafi utanríkisráðuneytið fengið vísbendingar um að ef til vill yrði Trine Skei Grande og Bård Vegar Solhjell neitað um vegabréfsáritun til Rússlands. Ráðuneytið hafi þó ekki fengið endanlega vitneskju um höfnun þeirra fyrr en síðdegis mánudaginn 30. janúar.
Formaður utanríkismálanefndar efri deildar rússneska þingsins bauð norsku nefndinni í heimsókn.
Rússneska sendiráðið í Osló hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að 29. nóvember 2016 hafi norsk yfirvöld fengið tilkynningu um hvaða stjórnmálamönnum verði neitað um vegabréfsáritun. Ekki kemur fram hvað þeir eru margir. Þetta sé gert vegna aðildar Norðmanna að þvingunum ESB auk þess sem Norðmenn hafi bannað Rússum að heimsækja Svalbarða.
„Það er kominn tími til að Norðmenn meti hve lengi þeir vilji styðja and-rússneskar þvinganir,“ segir í tilkynningu sendiráðsins.
Konstantin Kosatsjov, formaður utanríkismálanefndar efri deildar rússneska þingsins, segir: „Ekki höfum við innleitt þvinganir egn þingmönnum, það er ESB sem hefur gert það.“
Hann segir að stórþingið hafi fengið almennt boðsbréf um að senda nefnd manna til Moskvu.
„Velji Norðmenn að tilnefna fólk sem þeir vita að verði bannað að koma til Rússlands er það þeirra mál,“ segir Kosatsjov. Norsk yfirvöld hafi fengið vitneskju um hvaða einstaklingar ættu í hlut með góðum fyrirvara.
Rússar hafa lagt til að afnema allar hömlur á ferðir allra þingmanna, bæði norska og rússneska. Norðmenn hafi hafnað því segir Kosatsjov.